Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E53

Laxfiskar sem líffræðilegur gæðaþáttur við ástandsflokkun ferskvatns á Íslandi

Höfundar / Authors: Fjóla Rut Svavarsdóttir, Eydís Salome Eiríksdóttir, Ingi Rúnar Jónsson, Friðþjófur Árnason

Starfsvettvangur / Affiliations: Hafrannsóknarstofnun

Kynnir / Presenter: Fjóla Rut Svavarsdóttir

Í samræmi við vatnatilskipun Evrópusambandsins (2000/60/EB) skal meta vistfræðilegt ástand vatnshlota út frá samspili líffræðilegra, eðlisefnafræðilegra og vatnsformfræðilegra gæðaþátta. Hér er fjallað um möguleika á að nýta laxfiska sem líffræðilegan gæðaþátt við ástandsflokkun straum- og stöðuvatna á Íslandi. Laxfiskar eru viðkvæmir fyrir umhverfisálagi, s.s. efnamengun, röskun á búsvæðum og vistfræðilegri samfellu, og eru því taldir henta vel sem vísar á ástand vistkerfa. Horft hefur verið til aðferða sem þróaðar hafa verið í Noregi, þar sem tegundafjölbreytni í ferskvatni er lítil líkt og á Íslandi. Vonir standa til að hægt verði að nýta þær aðferðir á Íslandi, þar sem gögn um fiskstofna eru umfangsmikil og samanburðarhæf við gögn frá Noregi. Aðferðirnar byggja á tölulegum gögnum um seiðaþéttleika, aldursdreifingu, tegundasamsetningu og hlutfallslegri minnkun stofna laxfiska sem þróa mætti áfram til að styðja við markmið vatnatilskipunar og verndun vatnavistkerfa á Íslandi.