Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster E52
Höfundar / Authors: Sunna Björk Ragnarsdóttir1, Þóra Katrín Hrafnsdóttir1, Snorri Sigurðsson1
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun
Kynnir / Presenter: Sunna Björk Ragnarsdóttir
Á undanförnum árum hefur þekking á framandi tegundum í íslensku vatnaumhverfi aukist, en ljóst er að frekari vinna er nauðsynleg til að takast á við áskoranir sem tengjast útbreiðslu og áhrifum þeirra á vistkerfi. Tvær skýrslur Náttúrufræðistofnunar, unnar í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Umhverfis- og orkustofnun, leggja grunn að þessari vinnu. Fjallað verður um stöðu þekkingar á framandi tegundum í ferskvatni og strandsjó, og kynntar erlendar matsaðferðir sem gætu nýst við þróun íslensks matskerfis. Þar ber helst að nefna norsku GEIAA-matsaðferðina og alþjóðlegu EICAT og SEICAT aðferðirnar sem meta áhrif tegunda á vistkerfi og mannlega velferð. Fjöldi framandi tegunda við Ísland fer vaxandi og áhrif þeirra á líffræðilega fjölbreytni eru misjöfn og oft illa þekkt. Því er brýnt að þróa samræmda aðferðafræði til að meta ágengni og áhættu, safna gögnum og greina tegundir sem kunna að verða ágengar. Í erindinu verður einnig kynnt fyrirhuguð vinnustofa á Íslandi í mars 2026 þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar munu vinna með málaflokkinn í þverfaglegu samhengi. Markmið vinnustofunnar verður að greina stöðu málaflokksins hérlendis, samræma rannsókna- og matsaðferðir og móta næstu skref í stjórnun framandi tegunda á Íslandi.