Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E49

Hreiðurstæðaval vaðfugla á Suðvesturlandi

Höfundar / Authors: Sigrún Sigurðardóttir, Tómas Grétar Gunnarsson, Aldís Erna Pálsdóttir, Snæbjörn Pálsson

Starfsvettvangur / Affiliations: Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi

Kynnir / Presenter: Sigrún Sigurðardóttir

Ísland er þekkt fyrir að vera mikilvægt varpsvæði vaðfugla en ár hvert koma stórir hlutar Evrópustofna nokkurra tegunda hingað til lands til varps. Vísbendingar eru um hraða fækkun vaðfugla víða á láglendi síðustu áratugi. Til að stuðla að vernd stofnanna er mikilvægt að auka skilning á búsvæðavali tegundanna en þær upplýsingar sem liggja fyrir beinast einkum að búsvæðagerðum en ekki að byggingu búsvæðanna. Flestir vaðfuglar verpa í opnum búsvæðum, þar sem ekki er mikið um háan gróður eða mannvirki. Talið er að þeir velji opin búsvæði á álegu, m.a. til að koma auga á afræningja snemma. Það auðveldar þeim að geta forðað sér tímanlega af hreiðrum sínum og hjálpar við að villa um fyrir afræningjum. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna breytileika í hreiðurstæðavali algengra vaðfugla sem verpa annað hvort í opin eða lokuð hreiður. Mældir voru þættir sem lýsa byggingu búsvæða: gróðurhæð, þekja gróðurs, hulning hreiðra, þéttni jarðvegs, samsetning plöntuhópa og þeir bornir saman milli hreiðurstæða og slembipunkta. Rannsóknin fór fram á Suðvesturlandi 2023 og 2024 þar sem breytingar á landnotkun eru hraðar og vaðfuglum fækkar. Nýta má niðurstöðurnar til að gera verndun búsvæða sem skilvirkasta.