Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E47

Uppfærður Válisti fugla

Höfundar / Authors: Aldís Erna Pálsdóttir

Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun

Kynnir / Presenter: Aldís Erna Pálsdóttir

Válistar eru mikilvæg verkfæri til að fylgjast með stofnþróun dýra- og plöntutegunda og meta hvort tegundir séu í hættu á útrýmingu. Við gerð válista er horft til breytinga á stofnstærð yfir viðmiðunartímabil sem nemur þremur kynslóðalengdum hjá hverri tegund. Hjá fuglum getur þetta tímabil verið allt að 80 ár hjá langlífum tegundum en hjá skammlífari tegundum er það töluvert styttra eða um 7–8 ár en þó er aldrei miðað við minna en 10 ár. Árið 2025 var válisti fugla á Íslandi endurskoðaður í heild sinni. Metnar voru 91 tegund og töldust 43 í hættu, samanborið við 41 í síðustu útgáfu válistans. Af þeim tegundum sem metnar voru er mikill meirihluti varpfuglar hér á landi en einnig er um að ræða far- og vetrargesti. Notast er við bestu gögn við mat á hverri tegund, en þau geta t.d. verið talningar á varptíma, vetrarfuglatalningar, rannsóknir á ábúð á þekktum varpstöðum eða endurheimtur af merktum fuglum. Við svæðisbunda válista eins og þann íslenska er nauðsynlegt að skoða stöðu tegunda í alþjóðlegu samhengi. Teljist íslenski stofninn ekki einangraður og/eða einungis lítill hluti (<1%) af heimsstofni finnst hér eru tegundir færðar í lægri hættuflokk. Af helstu breytingum á válista fugla árið 2025 má nefna að svartbakur flokkast nú í bráðri hættu (CR) en fækkað hefur í stofninum >80% á viðmiðunartímabili. Auk þess urðu miklar breytingar í hópi vaðfugla en lóuþræll, stelkur, heiðlóa og spói flokkast nú í nokkurri hættu (VU) en voru ekki á válista áður.