Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E46

Langtímabreytingar á fjölda og útbreiðslu flórgoða á Íslandi

Höfundar / Authors: Þorkell Lindberg Þórarinsson(1), Aðalsteinn Örn Snæþórsson(1), Árni Einarsson(2), Einar Ólafur Þorleifsson(3), Halldór Walter Stefánsson(4), Róbert Arnar Stefánsson(5), Snæþór Aðalsteinsson(1), Yann Kolbeinsson(1), Ævar Petersen

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrustofa Norðausturlands, 2. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn/Náttúrufræðistofnun, 3. Náttúrustofa Norðurlands vestra, 4. Náttúrustofa Austurlands, 5. Náttúrustofa Vesturlands

Kynnir / Presenter: Þorkell Lindberg Þórarinsson

Flórgoði (Podiceps auritus) er mjög sérhæfður vatnafugl og eini fulltrúi sinnar ættar á Íslandi. Aðal heimkynni flórgoðans hér eru í Mývatnssveit þar sem finna má yfir helming íslenska varpstofnsins. Fjöldi flórgoða hefur verið talinn þar reglulega frá 1975 og á öðrum mikilvægum flórgoðasvæðum í Þingeyjarsýslum síðan 2004. Þess utan hafa verið gerðar fimm heildartalningar á stofninum hér á landi á tímabilinu 1990 - 2024. Niðurstöður talninga, ásamt eldri heimildum um dreifingu og fjölda flórgoða, sýna fram á að flórgoðastofninn hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu áratugum, bæði hvað varðar fjölda og útbreiðslu. Nýjustu talningar sýna fækkun í stofninum á landsvísu samhliða aukinni dreifingu um landið. Ekki er ljóst hvað skýrt getur þessar stofnbreytingar en í gegnum tíðina hafa komið til umræðu þættir eins og framræsla votlendis, tilkoma minksins (Neogale vison), meðveiði í silunganet og fæðuframboð á varpstöðum. Þessu til viðbótar hafa verið nefndar til sögunnar aðstæður á vetrarstöðvum sem lengi voru óþekktar. Nýlegar rannsóknir á svæðanotkun íslenskra flórgoða utan varptíma sýna að einstaklingar innan stofnsins geta verið viðkvæmir fyrir staðbundnum aðstæðum á vetrarstöðvum vegna þess hversu tryggir þeir eru sömu svæðunum á milli ára. Mikill breytileiki innan stofnsins bendir þó til að þær skýri ólíklega miklar stofnbreytingar til lengri tíma litið.