Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E36

Loðna í eldi: vöxtur, lifun og þroski loðnu alinnar á mismunandi hitastigum.

Höfundar / Authors: Einar Pétur Jónsson, Thassya C. Dos Santos Schmidt, Kristján Þórhallsson, Tómas Árnason

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hafrannóknastofnun, 2. Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Einar Pétur Jónsson

Loðna spilar lykilhlutverk í vistkerfum norðarlega í bæði Atlants- og Kyrrahafi, og er mikilvæg þeim samfélögum sem þar búa. Auk þess er loðna æti fyrir ýmsar tegundir á svæðinu, til dæmis fyrir þorskinn – þá fisktegund sem mestu máli skiptir fyrir íslenskt hagkerfi. Fyrri rannsóknir gefa til kynna að útbreiðsla loðnu sé viðkvæm fyrir breytingum á hitastigi, með tilheyrandi afleiðingum fyrir vist- og hagkerfi. Nýlega var loðna alin frá klaki til kynþroska í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar, sem gaf þá færi á tilraunarannsóknum eins og þeirri sem hér er kynnt. Tilgangur þessarar rannsóknar er að öðlast betri innsýn í frammistöðu og þol loðnu á mismunandi hitastigum. Tilraunin stóð yfir í eitt og hálft ár frá myndbreytingu, á fimm mismunandi hitastigum (3° til 15°C), og áhrif hitastigs voru metin út frá vexti, lifun, kynþroska og kynjahlutföllum. Hámarkslengd var mest milli 3°C og 7°C, lækkaði svo með hærra hitastigi og fiskarnir nálguðust þá lengd almennt hraðar á hærri hitastigum. Kynþroski, hrognafylling og hlutfall hrygna minnkuðu með hærri hita, og lifun var áberandi dræm á 15°C. Rannsóknin eykur skilning okkar á sambandi loðnu við hitastig og veitir mikilvægar vísbendingar um hlutverk hitastigs í þeim sveiflum sem orðið hafa í loðnustofninum við Ísland. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi tilrauna sem vara verulegan hluta æviskeiðs þeirrar tegundar sem rannsökuð er svo áhrif þeirrar breytu sem er prófuð skiljist sem best.