Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025
Erindi/veggspjald / Talk/poster E12
Höfundar / Authors: Sunna Björk Ragnarsdóttir1, Steinunn Hilma Ólafsdóttir2
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrufræðistofnun, 2. Hafrannsóknastofnun
Kynnir / Presenter: Sunna Björk Ragnarsdóttir
Circumpolar Biodiversity Monitoring Program (CBMP) hefur það markmið að samræma og efla langtímavöktun líffræðilegs fjölbreytileika á norðurslóðum. CBMP er lykilverkefni vinnuhóps Norðurskautsráðsins um líffræðilegan fjölbreytileika, CAFF. Með þátttöku í CBMP tekur Ísland virkan þátt í því að fá sameiginlega og alþjóðlega yfirsýn yfir lífríkisbreytingar, byggða á gögnum og rannsóknum sem unnið er að hér á landi. Undir CBMP starfa fjórir hópar sérfræðinga sem nálgast viðfangsefnið á vistfræðilegum grunni; sjór, ferskvatn, þurrlendi og strandlendi. Þróun sameiginlegra vöktunaráætlana og útgáfa heildstæðra stöðurita, sem unnin eru innan CBMP, hefur styrkt getu okkar til að miðla þekkingu og setja íslensk gögn í stærra samhengi. Með því að leggja til íslensk gögn og sérfræðiþekkingu fá íslenskir sérfræðingar tækifæri til að miðla reynslu og þekkingu ásamt því að læra af erlendum samstarfsaðilum. Þannig verður auðveldara að greina þróun lífríkis á norðurslóðum, bæði vegna mats á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra og tengja niðurstöður við alþjóðlega stefnumótun. Jafnframt er markmiðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni (CBD) fylgt eftir og áherslum um verndun líffræðilegs fjölbreytileika komið á framfæri í stefnumótun ríkja. Ísland hefur þannig tvíþættan ávinning af CBMP: annars vegar með því að leggja gögn og sérfræðiþekkingu til samstarfsins, hins vegar með því að nýta alþjóðlegar niðurstöður í innlendri stefnumótun og ákvarðanatöku um vöktun, vernd og nýtingu lífríkis