Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E119

Útbreiðsla sjálfsáinnar stafafuru (Pinus contorta L.) á Íslandi

Höfundar / Authors: Árni Valdason (1), Pawel Wasowicz (2), Arnar Pálsson (1), Ingvar Andrésson (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskóli Íslands, 2. Náttúrufræðistofnun

Kynnir / Presenter: Árni Valdason

Stafafura (Pinus contorta) er mikið notað skógartré með mikla vistfræðilega aðlögunarhæfni. Hún er upprunnin í vesturhluta Norður-Ameríku en var flutt til Íslands árið 1940 og hefur síðan verið víða gróðursett í skógrækt. Hins vegar hefur útbreiðsla hennar út fyrir skógræktarsvæði vakið áhyggjur af áhrifum hennar á staðbundin vistkerfi. Rannsókn okkar fór fram á 17 skógræktarsvæðum á Vestur- og Suðurlandi. Metin var útbreiðsla sjálfsáningar stafafuru, m.a. þéttleiki, hæð og fjarlægð plantna frá fræuppsprettu. Einnig voru skráðir könglar og vistgerðir þar sem sjálfsáning átti sér stað. Niðurstöðurnar sýna að stafafura hefur getu til að breiðast hratt og á áhrifaríkan hátt út yfir stór svæði í grennd við skógrækt hérlendis, þar sem aðstæður eru hagstæðar. Á flestum þeim svæðum finnast sjálfsáningin langt utan marka skógræktarinnar. Þéttleiki og útbreiðslumörk hennar ræðst að nokkru leyti af aldri skóga og ríkjandi vindi. Einnig kom fram neikvætt samband milli gróðurþekju og þéttleika: því þéttari sem gróðurinn er, þeim mun færri stafafuruplöntur ná fótfestu. Stafafura nýtir helst lyngmóa, mosa- og lynghraun, einnig rof- eða strjálgróin svæði, en er sjaldgæf í mýrum, engjum, birkikjarri og á öðrum svæðum með þéttum og gróskumiklum gróðri. Á heildina varpar rannsóknin ljósi á raunverulega útbreiðslu stafafuru á Íslandi og veitir mikilvægar upplýsingar sem geta nýst við ákvarðanatöku um vöktun, stjórnun og framtíðarstefnu í skógrækt og náttúruvernd.