Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E117

Þekkingarsetur Suðurnesja - miðstöð náttúruvísinda

Höfundar / Authors: Daníel G. Hjálmtýsson

Starfsvettvangur / Affiliations: Þekkingarsetur Suðurnesja

Kynnir / Presenter: Daníel G. Hjálmtýsson

Þekkingarsetur Suðurnesja er miðstöð náttúruvísinda á Suðurnesjum. Innan veggja þess fer fram fjölþætt rannsóknar-, vísinda – og fræðslustarf á vegum Þekkingarsetursins og stoðstofnana þess; Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Náttúrustofu Suðvesturlands auk ýmissa aðila sem leggja stund á rannsóknir í náttúruvísindum. Hundruð nemenda af öllum skólastigum sækja setrið heim yfir starfsárið og koma víðsvegar að. Dvelja nemendur þá ýmist til lengri eða skemmri tíma, m.a. við vinnslu lokaverkefna í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi, alþjóðlegra samstarfsverkefna eða til úti- og vettvangsnáms af ýmsu tagi, alveg niður í leikskólastig. Nærumhverfi Þekkingarsetursins, aðstaða þess og aðbúnaður, býður upp á óteljandi möguleika til verklegrar kennslu, útináms, sérhæfingar og heildstæðra námskeiða í náttúruvísindum. Auðvelt er að aðlaga efni og áherslur öllum skólastigum, þekkingu og hæfni þeirra sem taka þátt hverju sinni sem og að miða áherslur á endurmenntun kennara og leiðbeinenda. Þá er sannarlega sóknarfæri í nýsköpun og nýnæmi kennsluaðferða og námsleiða í miðlun og kennslu náttúrufræða, sér í lagi verklegrar kennslu á sviðum sjávarlíffræði, fuglafræði, hvalafræði, eiturefnavistfræði og almennrar vistfræði. Í Þekkingarsetrinu er að finna margvísleg tækifæri og tól til eflingar og þróunar náms og kennslu í náttúrufræði auk samþættingar við aðrar námsgreinar eins og list- og verkgreinar, samfélagsgreinar, margmiðlun, nýsköpun, lífsleikni, svo eitthvað sé nefnt.