Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2025

Erindi/veggspjald / Talk/poster E115

Frá PISA til kennslustofunnar: Hvað segir rannsóknir um stöðu náttúruvísindamenntunar á Íslandi?

Höfundar / Authors: Edda Elísabet Magnúsdóttir (1) og Haukur Arason (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Kynnir / Presenter: Edda Elísabet Magnúsdóttir

Niðurstöður PISA sýna að vísindalæsi íslenskra unglinga hefur hrakað verulega frá 2009 til 2022 og er nú langt undir bæði OECD-meðaltali og hinum Norðurlöndunum. Árið 2022 náðu 36% nemenda ekki lágmarkshæfni. Markmið nýlegra rannsókna var annars vegar að greina þróun árangurs íslenskra unglinga í einstaka hæfniþáttum PISA 2009–2022 og meta hvernig kjarnanámsefni styður þá hæfni, og hins vegar að kanna menntun, starfsaldur og endurmenntun kennara og tengsl þess við fjölbreytta kennsluhætti á unglingastigi. Niðurstöðurnar sýndu að vísindalæsi hefur staðið í stað eða versnað frá 2009 fyrir flesta þætti. Nemendur stóðu best í þekkingu á vísindalegum aðferðum en verst í skilningi á eðli vísindalegrar þekkingar og í jarð- og geimvísindum. Mikill breytileiki var í getu nemenda til að útskýra á vísindalegan hátt og á þekkingu á inntaki vísindanna. Kjarnanámsefnið studdi aðeins að hluta við þá hæfniþætti sem PISA metur í tengslum við vísindalæsi og skortir efni sem styrkir faglæsi og dýpri skilning. Rannsókn á kennsluháttum sýndi jafnframt að kennsla var að mestu námsbókastýrð, með áherslu á innlögn og skrifleg verkefni fremur en verklega kennslu og útinám. Helstu hindranir voru tímaleysi, stórir hópar, aðstöðuleysi og faglegt óöryggi, en reynslumeiri kennarar beittu frekar fjölbreyttari aðferðum. Samspil þessara þátta undirstrikar brýna þörf á markvissum aðgerðum til að efla náttúruvísindamenntun á Íslandi.