Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Vöktun bjargfuglastofna á Íslandi 2009 til 2022

Höfundar / Authors: Yann Kolbeinsson (1), Snæþór Aðalsteinsson (1), Þorkell Lindberg Þórarinsson (1), Brynjúlfur Brynjólfsson (2,3), Cristian Gallo (4), Hálfdán Helgi Helgason (5), Jón Einar Jónsson (6), Rodrigo A. Martínez Catalán (7), Róbert Arnar Stefánsson (8) og Sindri Gíslason (9)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrustofa Norðausturlands, 2. Fuglaathugunarstöð Suðausturlands, 3. Náttúrustofa Suðausturlands, 4. Náttúrustofa Vestfjarða, 5. Náttúrustofa Austurlands, 6. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, 7. Náttúrustofa Suðurlands, 8. Náttúrustofa Vesturlands, 9. Náttúrustofa Suðvesturlands

Kynnir / Presenter: Snæþór Aðalsteinsson

Sjófuglar í íslenskum fuglabjörgum geta með fremur einföldum hætti nýst sem hentugar vísitegundir á vissa umhverfisþætti í Norður-Atlantshafi og eru jafnframt mikilvægur hluti af líffræðilegum fjölbreytileika. Fimm tegundir sjófugla hafa verið vaktaðar á varptíma í íslenskum fuglabjörgum með reglubundnum hætti frá árinu 2009. Um er að ræða langvíu (Uria aalge), stuttnefju (Uria lomvia), álku (Alca torda), ritu (Rissa tridactyla) og fýl (Fulmarus glacialis). Fuglabjörgin eru heimsótt fyrri hluta sumars og ljósmyndir teknar af föstum sniðum í björgunum. Fjöldi svartfugla er talinn af myndunum, sem og fjöldi rituhreiðra og fýlssetra. Með þessu fæst vísitala um stofnbreytingar milli ára í hverri byggð fyrir sig sem vöktuð er. Á tímabilinu 2009 til 2022 fjölgaði langvíu í björgum um mest allt land. Stuttnefjum fækkaði í smærri byggðum, s.s. á austan- og sunnanverðu landinu, en fjölgunar gætti í stærri byggðum á norðvesturhluta landsins. Á sama tíma fjölgaði álku um land allt. Sveiflukenndari og landshlutabundnar breytingar mátti sjá hjá ritu, á meðan fýl fækkaði jafnt og þétt heilt yfir. Langtímavöktun sem þessi veitir mikilvæga innsýn í þróun þessara sjófuglastofna hér við land og undirstrikar jafnframt mikilvægi samstarfs milli stofnana þegar hugað er að langtímavöktun á landsvísu.