Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Kristín Svavarsdóttir (1), Ása L. Aradóttir (2), Menja von Schmalensee (3), Anne Bau (1) og Róbert A. Stefánsson (3)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Landgræðslan, 2. Landbúnaðarháskóli Íslands, 3. Náttúrustofa Vesturlands
Kynnir / Presenter: Kristín Svavarsdóttir
Ágengar tegundir eru ein helsta umhverfisáskorun okkar tíma. Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis), sem notuð var í landgræðslu um áratugaskeið, hefur verið flokkuð sem ágeng og á síðustu árum numið gróið land í vaxandi mæli. Til að bregðast við aukinni útbreiðslu hennar og skipuleggja markvissa stýringu þarf þekkingu á aðferðum til að eyða henni. Árið 2010 var lögð út tilraun í rofnu mólendi í Stykkihólmi sem lúpína hafði lagt undir sig. Þar var borinn saman árangur af árlegri eyðingu lúpínu með slætti og plöntueitri en til viðmiðunar voru óhreyfðir lúpínureitir (þrjár meðferðir, fimm endurtekningar, samtals 15 5x20 m reitir). Eftir 2015 var hætt að nota eitur í tilrauninni og áður eitruðum reitum skipt í tvennt, helmingur sleginn og hinn látinn óhreyfður. Strax eftir að aðgerðir hófust gaf lúpína verulega eftir í slegnum og eitruðum reitum og árið 2015 var þekja hennar þar marktækt minni en í viðmiðunarreitum. Árið 2021 var þekja lúpínu enn lág í slegnum reitum, hafði aukist aðeins í eitruðum reitum sem höfðu verið slegnir frá 2016 en þar sem aðgerðum var hætt var lúpína orðin jafnmikil og í óhreyfðum reitum. Tegundaauðgi jókst í slegnum reitum milli mælinga en minnkaði í óhreyfðu reitunum. Hún jókst einnig í eitruðu reitunum en þegar hætt var að eitra fækkaði tegundum þar sem ekkert var gert en hélt afram að fjölga í reitum sem slegnir voru. Niðurstöðurnar sýna að unnt er að hamla útbreiðslu lúpínu með árlegum slætti og stuðla þannig að aukinni líffræðilegri fjölbreytni.