Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Svipfarsbreytileiki og stofngerðir íslenska heimskautarefsins (Vulpes lagopus)

Höfundar / Authors: Anna Bára Másdóttir, Ester Rut Unnsteinsdóttir, Snæbjörn Pálsson, Bruce J. McAdam, Nicolas Lecomte

Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Anna Bára Másdóttir

Íslenski heimskautarefurinn (Vulpes lagopus) er í sérstöðu vegna einangrunar sinnar frá öðrum stofnum og aðlögun að skilyrðum landsins. Fyrri rannsóknir á fæðuvali refsins benda til að breytileiki sé til staðar innan landsins þar sem mælingar á stöðugum samsætum gáfu til kynna tvær vistgerðir, strandarefir og innsveitarrefir. Hinsvegar hafa erfðarannsóknir með mismunandi markerum ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um það. Það er mikil þörf að öðlast meiri skilning á aðgreiningu stofnsins innanlands m.a. við greiningar á stofnsveiflum tegundarinnar, og hér er það gert með greiningu á svipgerðareinkennum. Á Náttúrufræðistofnun Íslands er stórt safn refakjálka sem hafa verið stærðarmældir síðan söfnun hófst árið 1979. Þessar mælingar ásamt lögun kjálkanna verða skoðaðar og breytileiki milli svæða og tímabila kannaður. Niðurstöðurnar verða líka nýttar til þess að tengja aðlögun og þróun kjálkanna við breytilegt fæðuval og nýtingu vistkerfa með fleiri mælingum á stöðugum samsætum. Fyrstu niðurstöður benda til þess að refir frá Austurlandi hafi lengri kjálka og á Vestfjörðum hafi þeir styst síðan mælingar hófust. Refir frá Austurlandi eru innsveitarrefir þar sem fæðan er oftast af landrænum uppruna, á meðan Vestfjarðartófur eru strandarefir með aðgang að rekafjörum og sjófuglabyggðum. Næsta skref er að skoða lögun kjálkabeinanna og meta hvort að hún sé líka breytileg milli svæða og aðlöguð að ólíku fæðuvali.