Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Róbert A. Stefánsson (1) Menja von Schmalensee (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrustofa Vesturlands
Kynnir / Presenter: Róbert A. Stefánsson
Veiðar á íslenskum fuglum eru leyfðar í því skyni að nýta þá eða koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum. Skotveiðar eru heimilar á 9 fuglategundum sem lítið sem ekkert eru nýttar. Þetta eru hrafn, fýll, kjói og máfarnir rita, hettumáfur, sílamáfur, silfurmáfur, hvítmáfur og svartbakur. Skotveiðar þessara tegunda eru fyrst og fremst heimilar á grundvelli tjóns sem tegundirnar eru taldar valda. Tjónið hefur hvorki verið vel skilgreint né mælt en hefur helst verið tengt nýtingu æðarvarps. Varnaraðgerðir eru þó einnig stundaðar við t.d. vatnsból, flugvelli, sorphauga og fiskeldi. Vitað er að hrafn, svartbakur, sílamáfur og silfurmáfur eiga það til að taka æðaregg og unga. Tjón af völdum hettumáfs, hvítmáfs og kjóa er að öllum líkindum hverfandi lítið og ljóst er að rita og fýll valda engu tjóni.
Rándýr, þ.m.t. fuglar sem stunda ránlífi, eru sérlega mikilvæg fyrir viðhald líffræðilegrar fjölbreytni. Í erindinu verður farið yfir hvers vegna svo sé, og farið yfir þróun stofnstærðar hjá öllum framangreindum tegundum, sem hefur verið mjög neikvæð undanfarna áratugi. Líkur eru á að veiðarnar spili þar hlutverk, einkum hjá svartbak og hrafni, þótt takmarkað fæðuframboð fyrir sjófugla hafi líka haft mikil áhrif. Mikilvægt er að bregðast við þessari stöðu og þrengja verulega veiðiheimildir frá því sem nú er og afnema veiðar á tegundum sem hvorki eru nýttar né valda tjóni, enda ganga þær heimildir gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.