Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Svanhildur Egilsdóttir (1), Laure de Montety (1), Sindri Gíslason (2), Joana Micael (2), Áki Jarl Láruson (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hafrannsóknastofnun, Fornbúðir 5, 220 Hafnarfjörður. 2. Náttúrustofa Suðvesturlands, Garðvegi, 245 Suðurnesjabæ.
Kynnir / Presenter: Svanhildur Egilsdóttir
Sumarið 2022 fundust hvítir eggjasekkir á leirum við innanverðan Breiðafjörð. Eggjasekkirnir voru þar líka í desember sama ár og svo aftur í töluverðu magni sumarið 2023. Útlit eggjasekkjanna benti til að þeir tilheyrðu ákveðnum hópi sjávarsnigla. Leit að eigendunum skilaði árangri og sniglar að leggja egg fundust um lok sumars 2023. Útlit sniglanna benti til að þeir tilheyrðu ættinni Aglajidae. Erfðagreining leiddi síðan í ljós að um tegundina Melanochlamys diomedea væri að ræða. Sniglar af þessari tegund eru með viðkvæma innri skel sem er baklæg á afturenda dýrsins. Fullvaxnir eru sniglarnir 15 til 20 mm að á lengd, dökkbrúnir, nánast svartir, með bláleitum blæ. Þeir eru rándýr sem lifa á burstaormum og þráðormu. Tegundin Melanochlamys diomedea hefur ekki fundist áður í Atlantshafi. Skráðir fundarstaðir eru við vesturströnd Norður Ameríku, þó möguleg útbreiðsla kringum norðurskaut sé að eiga sér stað. Ekki er vitað hvernig snigillinn hefur borist til landsins eða hvenær. Miðað við magnið á leirunum þar sem hann fannst er líklegt að hann hafi verið hér einhvern tíma. Erfitt er að segja til um hvernig tegundin hefur borist hingað, byrja þarf á að kanna útbreiðslu hennar við landið. Frekari rannsóknir eru því mjög mikilvægar.