Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Þorvaldur Örn Árnason
Starfsvettvangur / Affiliations: Líffræðingur og kennari á eftirlaunum
Kynnir / Presenter: Þorvaldur Örn Árnason
Með notkun alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) til upprgæðslu er ekki stefnt að því að hú þeki landið heldur standi þar tímabundið og auðgi jarðveginn að lífrænu efni og köfnunarefni, búi þannig í haginn fyrir aðrar tegundir en hverfi svo sjálf. Þá þarf að vera hægt að hafa stjórn á útbreiðslu og þekkja frævistfræði hennar, m.a. fræforða sem hún myndar í jarðvegi og hve langlífur hann er.
Lúpínan er fjölær, myndar mikið fræ sem flest fellur nálægt móðurplöntu. Aðeins hluti þess spírar á næsta vori. Hitt liggur í dvala í jarðvegi og spírar næstu ár og áratugi, enginn veit hve lengi það endist. Þannig myndar hún langlífan fræforða sem eykur uppgræðsluafköst hennar en gerir stjórn útbreiðslu hennar illmögulega.
Hér er lýst tilraun fyrirlesara til að komast að því hve lengi fræ alaskalúpínu lifir í jarðvegi og í hve ríkum mæli. Valdar voru 6 – 50 m2 breiður í blóma þar sem lúpínan hefur náð að sá sér, á 5 stöðum Suðvestanlands. Fræmyndun var stöðvuð með því að leyfa engum plöntum að blómstra og voru taldar plöntur sem koma upp af fræi hvert ár eftir það.
Elsti hluti tilraunarinnar hefur nú staðið í 11 ár en sá yngsti 4 sumur. Framkvæmd verður lýst í máli og myndum og gerð grein fyrir stöðunni nú, en rannsókninni er ekki lokið.
Rannsóknin er með aðstoð Sjálfboðaliðasamtaka um náttúruvernd (Sjá) og var styrkt af Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson.