Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Róbert A. Stefánsson, Hafrún Gunnarsdóttir, Jakob J. Stakowski og Menja von Schmalensee
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrustofa Vesturlands
Kynnir / Presenter: Róbert A. Stefánsson
Kría (Sterna paradisaea) er á meðal þeirra sjófugla sem gengið hefur illa að koma upp ungum stóran hluta síðustu tveggja áratuga, einkum sunnan- og vestanlands. Skortur hefur verið á magnbundnum rannsóknagögnum sem sýna þróun stofnstærðar kríu á landsvísu eða í einstökum vörpum. Hér er greint frá athugunum til að bæta úr því.
Rétt fyrir klak í seinni hluta júní 2022 og 2023 var fjöldi kríuhreiðra metinn í stóru varpi við Rif og Hellissand á Snæfellsnesi en það varp hefur gjarnan verið talið það stærsta á Íslandi. Útmörk varpsins voru metin og tilviljanakenndar staðsetningar lagðar út innan varpsvæðisins. Á hverjum slíkum stað var fjöldi kríuhreiðra talinn innan 6 metra hringmáls. Heildarfjöldi hreiðra var áætlaður um 13 þúsund fyrra árið en 17 þúsund það síðara. Munurinn var ekki tölfræðilega marktækur (p=0,6).
Sumarið 2023 voru öll helstu kríuvörp á Snæfellsnesi heimsótt og gróft mat lagt á stærð hvers þeirra. Niðurstaðan var svo borin saman við metna stærð kríuvarpa á Snæfellsnesi árið 2011, sem Freydís Vigfúsdóttir o.fl. birtu árið 2013. Sá samanburður leiddi í ljós að kríum á Snæfellsnesi virðist hafa fækkað mikið á 12 ára tímabili frá 2011 til 2023.
Mikilvægt er að bæta vöktun kríu á landsvísu, enda er hún tilvalin vísitegund á breytingar sem verða í vistkerfum hafsins. Í ljósi komandi umhverfisbreytinga verða slík gögn æ mikilvægari.
Mat á stærð kríuvarpsins við Rif og Hellissand er hluti af „Vöktun náttúruverndarsvæða“, sem er samstarfsverkefni náttúrustofa, N.Í. o.fl