Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

GróGos - Mat á áfallaþoli vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa gagnvart ákomu sets og fokefna

Höfundar / Authors: Pálína Pálsdóttir (1), Rannveig Ólafsdóttir (1), Guðmundur Halldórsson (2), Álfur Birkir Bjarnason (1), Fanney Ósk Gísladóttir (3), Lilja Jóhannesdóttir (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrustofa Suðausturlands, 2. Landgræðslan, 3. Landbúnaðarháskóli Íslands

Kynnir / Presenter: Álfur Birkir Bjarnason

Skaftárhlaup bera með sér ógrynni af aur sem sest að verulegu leyti til á þeim svæðum sem flóðin ná yfir og getur valdið spjöllum á gróðri. Þegar aurinn þornar verður hann síðan uppspretta efna sem berast með vindi og vatni yfir nærliggjandi svæði með þeim afleiðingum að viðkvæm vistkerfi spillast og lífsgæði íbúa í nálægum byggðum rýrna. Í verkefninu GróGos - Mat á áfallaþoli vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa er aflað upplýsinga um eiginleika vistkerfa á áhrifasvæði Skaftárhlaupa með tilliti til getu þeirra til að standast setákomu og hindra dreifingu fokefna að hlaupi loknu.
Rannsóknarsvæði verkefnisins var áhrifasvæði Skaftárhlaupa í byggð. Valin voru sex undirsvæði þar sem áfallaþol einstakra vistgerða var metið með vettvangsrannsóknum og drónamyndum. Þar að auki var viðhorfskönnun lögð fyrir íbúa svæðisins. Niðurstöðurnar voru síðan bornar saman við vistgerðarkort frá sömu svæðum, byggð á loftmyndum frá 2011. Mosahraunavist, sem er mjög útbreidd á svæðinu, hafði gefið mikið eftir á árabilinu frá 2011 til 2022, en lynghraunavist hafði gefið mun minna eftir og hefur því greinilega meira áfallaþol, þrátt fyrir tilvist áfoksgeira. Töluvert hefur verið lagt í uppgræðslu á svæðinu en vettvangskannanir bentu til þess að þær ættu víða undir högg að sækja.
Við munum kynna frekari niðurstöður verkefnisins auk þeirra aðgerða/tilrauna sem lagðar eru til til að efla áfallaþol vistkerfa við Skaftá gagnvart setákomu og síðkominni dreifingu setefna