Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Framlag Sigurðar Gunnarssonar (1812-1878) til þekkingar á náttúru Íslands

Höfundar / Authors: Hjörleifur Guttormsson

Starfsvettvangur / Affiliations: Sjálfstætt starfandi

Kynnir / Presenter: Hjörleifur Guttormsson

Í riti undirritaðs sem kemur út á næstunni og ber heitið „Í spor Sigurðar Gunnarssonar“ er gerð grein fyrir framlagi hans til kynningar á náttúru Íslands. Um hálendisferðir hans segir Þorvaldur Thoroddsen Í Landfræðissögu Ísl. (IV, 1902, s. 57): „Sigurður Gunnarsson aflaði sér á þessum ferðum og mörgum öðrum fjallferðum nær byggðum, meiri þekkingar um óbyggðir Íslands en flestir aðrir höfðu í þá daga ... því hann safnaði þar í eina heild flestu því, er menn um miðja 19. öld vissu um öræfi Íslands.“ Í bréfi til Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara 1855 segir Sigurður m.a.: Er náttúrufræðin kennd í Reykjavík þjóðlega? Eða er kennt mest að þekkja það sem aldrei sést á Íslandi. ... Ef náttúrufræðingarnir ykkar vildu fá innlenda náttúrugripi til að sýna lærisveinum sínum, ættu þeir að fara að safna. Ég hefi besta vilja til að senda þeim mikið af leir og grjóti og grasi úr Borgarfirði, ef ég vissi þeir vildu ...“ Í bréfi til Páls Melsteðs sagnfræðings segir Sigurður (1877): „Þá vil ég að kennd sé náttúrusaga lands okkar, en við eigum engar bækur um hana ... Það þarf að koma upp í Reykjavík safni innlendra náttúrugripa – skora á alla presta að senda til safnsins árlega allt það sem þeir geta af jurtum jarðar og skima tegundir og fleira – koma þannig upp safninu. Þá gæti komið í ljós hvað hér er að finna.“