Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023

Dreifing og lifnaðarhættir lúsmýs á Íslandi

Höfundar / Authors: Guðfinna Dís Sveinsdóttir (1), Nína Guðrún Baldursdóttir (1), Rafn Sigurðsson (1), Matthías Svavar Alfreðsson (2), Gísli Már Gíslason (1), Arnar Pálsson (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskóli Íslands 2. Náttúrufræðistofnun Íslands

Kynnir / Presenter: Guðfinna Dís Sveinsdóttir, Nína Guðrún Baldursdóttir og Rafn Sigurðsson

Hnattræn hlýnun og aukinn innflutningur opnar leiðir fyrir lífverur til Íslands. Lúsmý (Culicoides reconditus) er smá tegund af lúsmýsætt (Ceratopogonidae). Tegundin er nýr landnemi á Íslandi sem fyrst varð vart 2015. Kvendýrin þurfa blóð til að þroska egg og hefur þessi bitvargur hrjáð landsmenn síðan þá. Lítið er vitað um lifnaðarhætti C. reconditus og því erfitt að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir. Greining til tegunda innan ættkvíslar Culicoides er torveld en sameindaerfðafræðilegar aðferðir hafa nýst til að leiðrétta misgreiningar og varpa ljósi á duldar tegundir. Rannsóknarspurningar verkefnisins voru, i) úr hvernig jarðveg klekst C. reconditus, ii) hvenær byrjar flugtími C. reconditus, iii) er ein kynslóð á sumri eða fleiri, iv) er flugtími kvenflugna og karlflugna sá sami? Til að svara þessum spurningum voru lagðar út klakgildrur, ljósgildra, veitt með flugnaháf og jarðvegssýnum safnað. Sýnataka fór fram þar sem lúsmý er landlægt, í Kjós og Grímsnesi. Gildrur voru lagðar í mismunandi gerðum lands, frá þurrum búsvæðum yfir í vot. Niðurstöður benda til mests þéttleika snemma í ágúst og veiddust aðallega kvenflugur. Flugum fjölgaði frá fyrstu sýnum fram í ágúst og fækkaði svo hratt. Einungis veiddist lúsmý í háfa eftir að rökkva tók og í grennd við bústaði. Ekkert lúsmý kom í klakgildur og því ekki ljóst hvers konar landi þær klekjast úr. Í framhaldinu er fyrirhugað að leggja fleiri klakgildrur og í öðruvísi búsvæði.