Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Nína Guðrún Baldursdóttir, Guðfinna Dís Sveinsdóttir, Rafn Sigurðsson, Guðbjörg Ósk Jóndóttir, Arnar Pálsson
Starfsvettvangur / Affiliations: Háskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Nína Guðrún Baldursdóttir, Guðfinna Dís Sveinsdóttir, Rafn Sigurðsson,
Margar tegundir ávaxtaflugna hafa borist með okkur um veröldina, og nýta sér ávaxtagarða og/eða affall úr gerjun og rusl. Hérlendis voru engin ávaxtatré fyrir landnám og því hafa flugur í þessum hópi borist til landsins með mönnum og í vistir sem við sköpum þeim. Úti í heimi hafa vissar tegundir ávaxtaflugna orðið ágengar, jafnvel með neikvæð áhrif á ávaxtaframleiðslu. Flutningar á ferskum ávöxtum til landsins er tilvalin leið fyrir skordýr að berast hingað. Við spyrjum hvort einhverjar tegundir ávaxtaflugna hafi fótfestu hérlendis og lifi veturna. Einnig er ekki vitað hversu margar tegundir hafa borist hingað til lands og hverjar séu algengastar. Við lögðum gildrur á Reykjavíkur svæðinu sumarið 2023, greindum gögn úr haustskimunum síðustu fimm ár og greindum erfðaefni. Yfir sumarið 2023 jókst hlutfall ávaxtaflugna, fleiri gildrur voru jákvæðar í lok sumars en í uphafi þess. Þetta er fyrirsjáanlegt því kynslóðatími ávaxtaflugna hleypur á vikum, og geta stofnar “sprungið út”. Milli ára er munur á fjölda jákvæðra gildra, og einnig er mismikil þéttni eftir póstnúmerum. Erfðagreiningar á sýnum frá árinu 2021 sýna að fjóra aðal landnema, Drosophila barbarae, Drosophila melanogaster, Drosophila melanopalpa og Drosophila virilis. Einn tofn Drosophila funebris (fjósgerla) lifði í sama safnhaugakassa yfir margra ára skeið. Ávaxtaflugur eiga greiðan aðgang til landsins og koma sér fyrir í þéttbýli. Enn er óljóst hversu margar tegundir lifa veturna auk fjósgerlunar.