Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Tómas Árnason (1), Heiðdís Smáradóttir (2), Helgi Thorarensen (3,4), Agnar Steinarsson (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Hafrannsóknastofnun, 2. Samherji, 3. Háskólinn á Hólum, 4. The Norwegian College of Fishery Science, UIT.
Kynnir / Presenter: Tómas Árnason
Áhrif hitastigs á seiðastigi á vöxt og kynþroskaaldur bleikju voru könnuð í 654 daga tilraun. Rannsókninni var skipt upp í tvö tímabil. Á fyrra tímabilinu voru hópar bleikju aldir við 7, 10 eða 12 °C í 315 daga. Á seinna tímabilinu voru allir hóparnir aldir við 7°C fram að sláturstærð (~ 1300 g). Á fyrra tímabilinu jókst vaxtarhraðinn með hækkandi hita og á degi 315 var meðalþyngdin í hópi 12C 49% hærri en í hópi 7C, og 19% hærri en í hópi 10C. Á seinna tímabilinu var kynþroskatíðni hærri eftir því sem hitinn var hærri á seiðastiginu. Þetta varð til þess að stærðarröðunin eins og hún var á seiðastiginu snérist við á seinna tímabilinu. Í lok tilraunarinnar var meðaþyngdin í hópi 7C 4% hærri en í hópi 10C, og 14% hærri en í hópi 12C. Hitastig á seiðastigi hafði mun meiri áhrif á kynþroskaaldur hrygna, og þó hængar hafi vaxið hraðar en hrygnur í öllum hópum var munurinn á stærð kynjanna meiri eftir því sem hitinn var hærri á seiðastiginu.