Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2023
Höfundar / Authors: Hafrún Gunnarsdóttir, Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúrustofa Vesturlands
Kynnir / Presenter: Hafrún Gunnarsdóttir
Sum villt dýr sækja í ríflegt fæðuframboð á ræktuðu landi og geta í einhverjum tilfellum skemmt uppskeru og valdið fjárhagslegu tjóni. Slíkir hagsmunaárekstrar bænda og villtra dýra eru vaxandi vandamál nú þegar mannkynið tekur sífellt meira pláss á jörðinni og ágangur manna á náttúruleg svæði eykst. Hér á landi hefur umræða um tjón á ræktarlandi af völdum villtra dýra einkum snúist um ágang fugla, þá sérstaklega álfta og gæsa. Sambandið milli stofnstærða eða svæðisbundins fjölda fugla og umfang tjóns á ræktarlandi er ekki endilega línulegt og hefur reynst flókið viðfangsefnið. Það hefur nær ekkert verið rannsakað hérlendis en mótast af mörgum ólíkum þáttum.
Brugðist hefur verið við þessum vanda með ólíkum leiðum víðs vegar í heiminum, sem hafa sumar hverjar skilað góðum árangri. Á veggspjaldinu eru þær teknar saman. Allar varnaraðgerðir ættu að byggjast á vistkerfisnálgun og taka mið af varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og dýravelferðarsjónarmiðum. Margar leiðir eru í boði sem ekki fela í sér bein dýradráp. Þá er forsenda aðgerða að árangur þeirra sé mældur í formi minna tjóns, en ekki í fjölda tjónvalda.
Þar sem á döfinni er stóraukin kornrækt hér á landi er brýnt að hefja strax samtal milli rannsakenda og ólíkra hagaðila og stórbæta þekkingu. Nauðsynlegt er að greina umfang vandans og prófa markvisst mismunandi aðferðir. Með aukinni þekkingu og samstarfi má vinna að sameiginlegu markmiði, sem er ekki að fækka fuglum heldur stemma stigu við tjóni á áhrifaríkan hátt.