Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster V8
Höfundar / Authors: Ása L. Aradóttir (1), Kristín Svavarsdóttir (2), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (3), Anna Mariager Behrend (1), Arnór Snorrason (4), Björn Traustason (4), Edda Sigurdís Oddsdóttir (4), Guðbjörg R. Jóhannesdóttir (5), Jóhann Þórsson (2), Jónína Sigríður Þorláksdóttir (1), Ólafur Arnalds (1), Snæbjörn Pálsson (3), Sólveig Sanchez (1) og Þórunn Pétursdóttir (2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Landbúnaðarháskóli Íslands, 2. Landgræðslan, 3. Háskóli Íslands, 4. Skógræktin, 5. Listaháskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Kristín Svavarsdóttir
Hnignun náttúrulegra vistkerfa samfara tapi á líffræðilegri fjölbreytni og loftslagsvá eru mestu áskoranir jarðarbúa á þessari öld. Til að bregðast við þeim hafa Sameinuðu þjóðirnar tileinkað áratuginn 2021-2030 endurheimt vistkerfa. Hnignuð vistkerfi eru útbreidd á Íslandi og losun frá þeim er stærsti þátturinn í loftslagsbókhaldi landsins. Til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi og skuldbindingar gagnvart Parísarsamkomulaginu þarf að draga úr losun frá landi og auka bindingu í jarðvegi og gróðri. Birkiskógar eru lykilvistkerfi í íslenskri náttúru en útbreiðsla þeirra nú er lítið brot af því sem var við landnám. Endurheimt birkivistkerfa er mikilvægir þáttur í vernd líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi, en getur jafnframt bundið mikið magn kolefnis úr andrúmslofti. BirkiVist er nýtt þverfræðilegt rannsóknaverkefni, styrkt af Markáætlun um samfélagslegar áskoranir og unnið af fjölbreyttum hópi frá mörgum stofnunum. Tilgangur BirkiVistar er að auka skilvirkni við endurheimt birkiskóga, meðal annars með því að greina vistfræðilegar og samfélagslegar áskoranir og tækifæri. Rannsakaðir verða þættir sem takmarka sjálfgræðslu birkis og útbreiðslu birkivistkerfa, og þróuð líkön sem nýtast markvissri áætlanagerð og vistheimtaraðgerðum. Menningarlegt gildi birkiskóga verður kannað og umhverfislegur ávinningur af endurheimt birkivistkerfa metinn, þ.m.t. fyrir kolefnisforða, vatnsbúskap, líffræðilega fjölbreytni, sem og sjónræn landslagsáhrif.