Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster V7
Höfundar / Authors: Guðný Rut Pálsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
Kynnir / Presenter: Guðný Rut Pálsdóttir
Humlumítillinn Parasitellus fucorum er algengt fylgdardýr humla (Bombus spp.) um allan heim og er hann algengur á humlum hér á landi. Fer allur lífsferill tegundarinnar fram innan bús humlanna. Þegar verðandi humludrottning yfirgefur bú sitt á haustin hangir annað gyðlustig mítilsins í hárum á loðnum búknum og fylgir henni í vetrardvalann. Þegar humlan hefur fundið nýjan bústað að vori, sleppa gyðlurnar loks takinu og halda þroska sínum áfram yfir í annað hvort fullvaxta kvendýr eða karldýr sem síðan makast. Þroskunartími mítlanna getur verið hraður við kjöraðstæður og því möguleiki á mörgum kynslóðum innan sama humlubús. Mítlarnir eru mjög hreyfanlegir og taka sér gjarnan far með kvenflugum, en þær sjá um að bera björg í bú. Eiga þeir til að sleppa takinu í blómum og bíða þar eftir næstu flugu til að taka sér far með henni yfir í annað bú. Fæðuval tegundarinnar er fjölbreytt og breytilegt eftir lífsstigi. Sýnt hefur verið fram á að karldýr, lirfur, fyrsta gyðlustig og stundum annað gyðlustig tegundarinnar stunda ránlífi með því að veiða sér ýmis skordýr til matar og éta egg þeirra. Þannig halda þau niðri óæskilegum lífverum í búinu. Á móti kjósa fullvaxta kvendýr og annað gyðlustigið frekar að nærast á sykruðu ysta lagi frjókornanna sem humlurnar bera í bú. Heildaráhrif tegundarinnar eru því talin vera óveruleg en geta orðið skaðleg verði fjöldi mítla mikill.