Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021

Erindi/veggspjald / Talk/poster V11

Endurheimt votlendis – er hægt að flýta fyrir landnámi votlendisgróðurs í rasksárum?

Höfundar / Authors: Ágústa Helgadóttir (1), Sunna Áskelsdóttir (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Landgræðslan

Kynnir / Presenter: Ágústa Helgadóttir

Við framkvæmd endurheimtar votlendis myndast oft töluverð rasksár á gróðurhulu þegar jarðvegur er færður til. Afar misjafnt er hversu fljótt og hvernig gróður þekur þessi sár. Hérlendis hafa verið reyndar þrjár aðferðir til að hraða og stuðla að landnámi votlendistegunda; i) flytja gróðurtorfur með votlendistegundum á röskuð svæði, ii) dreifa fræslægju af blettum innan svæðisins þar sem finnast votlendistegundir og iii) að sá einæru rýgresi til að ná þekju og flýta fyrir landnámi staðargróðurs. Sett var upp samanburðarrannsókn á Sogni í Ölfusi og á Ytri Hraundal á Mýrum þar sem aðferðirnar þrjár voru prófaðar á þeim svæðum sem röskuðust í kjölfar endurheimtaraðgerða sumarið 2019. Upphafsástand gróðurs og yfirborðs var mælt 2019, mælingarnar endurteknar 2020 og 2021. Gróðurmælingar fóru fram á 50 m sniðum með 100 punktmælingum á 50 cm fresti þar sem pinna var stungið niður og allar háplöntutegundir skráðar. Tegundalisti sniða var einnig skráð 1 m í hvora átti frá sniði. Bilamælingar yfirborðs voru skráðar eftir sniðum til að fá upplýsingar hvernig rasksárin myndu gróa, bilin voru metin eftir fimm þekjuflokkum; 0-10%, 11-33%, 34-66%, 67-90% og 91-100%. Frumniðurstöður benda til þess að vönduð vinubrögð við framkvæmd, hátt grunnvatnsborð og hægt vatnsrennsli á yfirborði flýti fyrir landnámi votlendisgróðurs og að munur sé á árangri aðferðanna þriggja.