Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster E99
Höfundar / Authors: Ásthildur Erlingsdóttir (1), Nóa Sólrún Guðjónsdóttir (1), Árni Kristmundsson (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: (1) Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
Kynnir / Presenter: Ásthildur Erlingsdóttir
Kynntar verða frumniðurstöður doktorsverkefnisins ,,Rannsóknir á Pridium sociabile (Patten 1936); brúin milli frítt lifandi lífvera og sníkjudýra''. Meginmarkmið verkefnisins er að afla grunnupplýsinga um líffræði og lífsferil Piridium sociabile (P.soc), sem er þróunarfræðilega einstakt snýkjudýr og finnst í fæti beitukóngs (Buccinum undatum). P.soc var upphaflega talin hluti af Apicomplexa, en nýlega hefur verið sýnt fram á að hún sé í raun forfaðir hópsins og er skyldust Chromerida, sem eru ljóstillífandi og frítt lifandi lífverur. Niðurstöður úr krufningum, vefjameinafræðilegri skoðun og staðbundni þáttaörun (In situ hybridisation) gefa til kynna að P.soc. sé algengt sníkjudýr í beitukóngi umhverfis Ísland, þar sem sníkjudýrið hefur fundist á ýmsum stöðum við landið og smittíðni er há. Úr erlendum efniviði hefur P.soc. einnig fundist við Frakkland, Írland, England og Kanada. Einnig hafa fundist sníkjudýr í fótum annarra skyldra sniglategunda, sem eru að öllum líkindum alls óþekkt. Fundist hafa Piridium-lík form í fótum sex annarra tegunda í sniglum sem veiddir voru við Ísland og Bandaríkin. Niðurstöður rannsóknarinnar munu ekki aðeins auka þekkingu á sníkjudýrinu sjálfu, heldur einnig varpa nýju ljósi á þróun sníkjulífs, mögulega tegundamyndun P.soc. og samþróun sníkjudýra og hýsla.