Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster E91
Höfundar / Authors: Þorleifur Eiríksson (1), Þorgerður Þorleifsdóttir (1,2), Hrefna Sigurjónsdóttir(3) og Hilmar J. Malmquist(2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1 RORUM, 2 Náttúruminjasafn Íslands, 3 Háskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Þorgerður Þorleifsdóttir
Gerð er grein fyrir útbreiðslu skötuorma (Lepidurus arcticus (Pallas 1793)) á Íslandi og spáð í fundarstaði krabbadýranna með tilliti til umhverfisþátta, þ. á m. hæðar yfir sjávarmáli og dýpi vatna sem dýrin fundust í. Gögnin ná yfir langt tímabil, frá 1780 til 2020, og taka til eigin rannsókna höfunda, rannsókna annarra og munnlegra upplýsinga frá almenningi og öðrum heimildarmönnum. Alls voru skráðir 183 fundarstaðir skötuorma og fundust þeir aðallega í tjörnum og grunnum vötnum á miðhálendinu í meira en 400 m h.y.s. Skötuormur og silungur komu fyrir saman í mörgum vatnanna og í langflestum vötnunum fannst skötuormur í mögum fiskanna. Margt bendir til að útbreiðsla skötuormanna á landsvísu mótist helst af hitastigi og er það í samræmi við niðurstöður rannsókna í Noregi og Svíþjóð og víðar á norðurhveli. Dýrin eru einær og til að vaxa og þroskast til fulls þurfa eggin mjög lágt hitastig yfir veturinn, en tiltölulega hátt hitastig yfir sumarið. Vísbendingar eru um að hlýnandi loftslag hafi sett mark sitt á útbreiðslu dýranna, einkum á vestanverðu landinu þar sem skötuormar eru fremur fágætir.