Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021

Erindi/veggspjald / Talk/poster E88

Prófanir á fælum til að minnka meðafla sjávarspendýra í netaveiðum

Höfundar / Authors: Guðjón Már Sigurðsson (1), Georg Haney (1)

Starfsvettvangur / Affiliations: Hafrannsóknastofnun

Kynnir / Presenter: Guðjón Már Sigurðsson

Meðafli sjávarspendýra í netaveiðum er algengt vandamál, og fyrir margar tegundir smáhvela þeirra helsta dánarorsök. Hér við Ísland er vandamálið aðallega bundið við hnísu auk selategunda sem veiðast í nokkru magni bæði í þorsk- og grásleppuveiðum með netum. Aukin krafa er frá vottunaraðilum sjálfbærrar nýtingar fiskistofna að minnka þennan meðafla, en auk þess hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum gert auknar kröfur um að fiskur sem þangað er fluttur sé laus við meðafla sjávarspendýra. Ýmis tæki hafa verið hönnuð til að reyna fæla sjávarspendýr frá netum, og í þessum tilraunum voru tvö slík tæki prófuð. Tækin tvö byggðu bæði á hljóðmerkjum til að fæla smáhveli frá, hið fyrra var hefðbundinn “pinger”, sem gefur frá sér hávært ping, á meðan hitt tækið gat spilað ýmisskonar hljóð (PAL), þar á meðal hljóð sem hnísur gefa frá sér til að vara við hættu. Tækin voru prófuð í Húnaflóa í apríl 2017, 2019 og 2020 í pöruðum tilraunum þar sem netatrosur voru með eða án tækja. Fyrsta tilraunin með hefðbundin “pinger” gaf ekki góða raun, og enginn marktækur munur var á meðafla milli trosa með eða án fælu, þar sem 5 hnísur veiddust í fælunetin en 4 í þau án fæla. Fælurnar höfðu ekki marktækan mun á fjölda þorska. Í annarri tilraun var notast við PAL fælur sem spiluðu hættuhljóð frá hnísum úr sædýrasafni. Sú tilraun gekk ekki heldur vel, þar sem 12 hnísur veiddust í fælunetin en 11 í þau fælulausu. Markækt fleiri þorskar veiddust í fælunetunum. Í þriðju tilrauninni var notast við PAL fælur með merki byggðu á nokkrum eldri gerðum “pingera” sem eru ekki lengur í framleiðslu. Sú tilraun gekk framar vonum, þar sem ekki veiddust hnísur í fælunetum, en 14 í netum án fæla. Fælurnar höfðu ekki marktækan mun á fjölda þorska sem veiddust. Þessar tilraunir sýna fram á mikilvægi þess að prófa búnað við ýmsar aðstæður áður en ákvörðun er tekin um notkun.