Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021

Erindi/veggspjald / Talk/poster E8

Nýr landnemi meðal lindýra; Sindraskel (Ensis terranovensis, Vierna & Martínez-Lage, 2012) finnst við Suðvesturland

Höfundar / Authors: Hilmar J. Malmquist (1), Karl Gunnarsson (2), Davíð Gíslason (3, 4), Sindri Gíslason (5), Joana Micael (5,) Sæmundur Sveinsson (4)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Náttúruminjasafn Íslands, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík; 2. Hafrannsóknastofnun, Fornubúðum 5, 220 Hafnarfirði; 3. A/OFRC, 755 Wallace Road Unit #5 North Bay, ON P1A 0E7, Kanada; 4. MATÍS, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík; 5. Náttúrustofa Suðvesturlands, Garðvegi, 245 Suðurnesjabæ.

Kynnir / Presenter: Karl Gunnarsson

Um áramótin 2020/2021 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar (Ensis sp., e. razor clams) í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Ekki er vitað til þess að áður hafi fundist hnífskeljar við Ísland ef frá er talinn fundur tveggja dauðra eintaka árið 1957 í fjörunni við Lónsfjörð á Suðausturlandi. Þær voru taldar vera af tegundinni E. magnus, sem Ingimar Óskarsson nefndi fáfnisskel. Í norðanverðu N-Atlantshafi hafa fundist sex tegundir hnífskelja. Þær eru líkar innbyrðis og getur verið erfitt að greina þær að. Í fyrstu var talið að nýi landneminn tilheyrði tegundinni E. leei, en niðurstöður erfðagreiningar á eintakinu frá Hafnará staðfesta að um er að ræða tegundina Ensis terranovensis, sem við höfum nefnt sindraskel. Skammt er síðan tegundinni var lýst og hefur hún einungis fundist áður við Nýfundnaland. Flutningur sjávarlífvera af mannavöldum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði fer vaxandi. Oftast eru slíkar framandi tegundir taldar berast með kjölvatni skipa, áfastar skipskrokkum eða með eldisdýrum sem flutt eru milli hafsvæða. Ætla má að sindraskeljarnar hafi borist hingað sem lirfur í kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd N-Ameríku, líklega fyrir 5–10 árum. Hnífskeljar geta orðið allstórar, allt að 20 cm langar, og þykja hnossgæti. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskelja er því mikilvæg.