Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster E57
Höfundar / Authors: Karl Skírnisson
Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum
Kynnir / Presenter: Karl Skírnisson
Fjöldi fisktegunda á Íslandsmiðum eru millihýslar hringorma, þráðorma sem lifa fullorðnir í sjávarspendýrum. Pseudoterranova tegundir lifa í selum, Anisakis í tannhvölum. Lirfustigin (L3, L4) geta lifað tímabundið í fólki. Þegar Pseudoterranova lirfur sleppa takinu í magaslímhúðinni eiga þær það til að slöngvast upp í kok eftir vélindanu, Anisakis hringormar bora sig aftur á móti gjarnan út úr meltingarveginum yfir í kviðarhol og fara þar á flakk. Frá 2004 hafa hringormar borist 17 sinnum til rannsókna að Keldum. Upplýsinga var aflað um hvar, hvenær og hvernig smitun var talin hafa orðið. Tvær tegundir fundust, Pseudoterranova decipiens í 15 tilvikum (88,2%), Anisakis simplex í tveimur (11,8%). Algengast var að finna P. decipiens lifandi í koki eða munni (11 tilfelli, lirfur höfðu lifað í maga í allt að 7 daga), í eitt skiptið fannst lirfa í ælu barns (lirfurnar orsaka ógleði), í öðru við þurrkun eftir salernisferð og í tveimur tilvikum fundust lirfur í fæðu áður en henni var kyngt. Annað A. simplex tilfellið var spriklandi lirfa í bleyju ungbarns, hitt var dauð lirfa í soðnum fiski sem barn spýtti út úr sér. Vaneldaður þorskur var oftast nefndur sem uppspretta lirfanna, sushi (tvö tilvik) og steinbítur (önnur tvö) voru einnig nefnd. Stundum var fisktegundin óþekkt. Hringormslirfur í maga valda stingandi sársauka. Lirfur á flakki í kviðarholi geta verið lífshættulegar, skaðsemin fer eftir líffærinu sem flakkað er um. Brýnt er að fjarlægja lifandi lirfur úr neyslufiski. Dauðir hringormar geta valdið bráðaofnæmi.