Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster E56
Höfundar / Authors: Árni Kristmundsson, Birkir Þór Bragason, Snorri Már Stefánsson, Nóa Sólrún Guðjónsdóttir, Hildur Magnúsdóttir, Ásthildur Erlingsdóttir.
Starfsvettvangur / Affiliations: Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Kynnir / Presenter: Árni Kristmundsson
Sníkjudýrinu Parvicapsula pseudobranchicola (Pp) var fyrst lýst árið 2002, í sjókvíalaxi í Noregi en hefur síðan greinst víðar, og í fleiri tegundum laxfiska, bæði í N-Evrópu og í Kyrrahafi. Sjúkdómurinn sem Pp veldur einkennist m.a. af bólgnum gervitálknum, blæðingum í augum og breyttri hegðun, s.s. deyfð, breyttri sundhegðun og lystarleysi, sem leiðir til megurðar og loks dauða. Aðalmarklíffæri sníkjudýrsins eru gervitálkn, en sé smit mikið getur það orðið kerfisbundið og greinst í flestum líffærum. Pp veldur umtalsverðum afföllum hjá eldislaxi í Noregi, einkum á norðlægari eldissvæðum, en sníkjudýrið virðist einnig útbreitt meðal villtra laxfiska þar í landi. Á Íslandi greindist Pp í fyrsta sinn árið 2019, í sjókvíalaxi og hefur greinst ítrekað síðan. Fram til þessa hafa engar kerfisbundnar rannsóknir verið gerðar á íslenskum laxfiskum m.t.t. Pp. Markmið rannsóknanna er að kanna tíðni og útbreiðslu Pp í laxfiskum á Íslandi, villtum og í eldi. Sýnum úr ríflega 500 fiskum frá mismunandi svæðum hefur verið safnað, og þau rannsökuð m.t.t. Pp með PCR, vefjameinafræði og staðbundinni þáttapörun (in situ hybridization). Fyrstu niðurstöður benda til þess að smittíðni Pp í villtum laxfiskum sé lág, bæði í nágrenni eldissvæða sem og fjarri þeim. Smittíðni í eldislaxi virðist breytileg eftir staðsetningum. Sum svæði greindust smitfrí, en á öðrum svæðum var tíðni Pp há. Miðað við reynslu úr norsku fiskeldi, má reikna með að Pp valdi umtalsverðum afföllum hjá sjókvíaeldi á Íslandi.