Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021

Erindi/veggspjald / Talk/poster E21

Náttúrufræðingurinn í takt við tímann: Glæsileg vefútgáfa með opinn aðgang

Höfundar / Authors: Anna Heiða Ólafsdóttir1, Guðmundur Björnsson1, Helena Óladóttir1, Hrefna Sigurjónsdóttir1, Gróa V. Ingimundardóttir1, Snæbjörn Guðmundsson1,2

Starfsvettvangur / Affiliations: 1Hið íslenska náttúrufræðifélag 2Náttúruminjasafn Íslands

Kynnir / Presenter: Ester Rut Unnsteinsdóttir

Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) var stofnað 16. júlí árið 1889 og er annað elsta starfandi félag landsins. Megintilgangur og markmið HÍN er að fræða almenning um náttúru Íslands og umheimsins, auka vitund og þekkingu almennings í náttúrufræðum og að stuðla að náttúruvernd og skynsamlegri umgengni við náttúruna. Félagið gefur út vandað tímarit, Náttúrufræðinginn í lengst af á eigin vegum, en einnig í samstarfi við aðrar stofnanir. Frá 2014 hefur tímaritið komið út í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands, sem leggur til helming kostnaðar við ritstjórn og útgáfunnar, auk þess að hýsa ritstjórnarskrifstofu tímaritsins. Útgáfa Náttúrufræðingsins er eitt merkasta og mikilvægasta langtímaverkefni HÍN og hefur staðið óslitið síðan 1931. Um árabil hefur verið í gildi samningur við timarit.is um að birta efni Náttúrufræðingsins með seinkun, fyrst að fimm en síðan þremur árum liðnum frá útgáfu. Árið 2017 samþykkti stjórn félagsins að kaupa mætti opinn aðgang að einstaka greinum sem höfundar fengu þar með leyfi til að dreifa. Í tilefni af 90 ára útgáfuafmæli blaðsins í ár var ákveðið að tímaritið kæmi út í vefútgáfu auk prentaða eintaksins. Vefútgáfan verður með svipuðu móti og hjá erlendum veftímaritum: rafræn birting með opnum aðgangi á öllu efni. Ritstjórnarstefna hefur verið uppfærð til samræmis við þessa nýju miðlun. Jafnframt á að auka fjölbreytni efnis í tímaritinu og m.a. miða efnisval við fleiri aldurs- og áhugahópa en nú er. Félagið bindur miklar vonir við hinn nýja miðil og vonast til þess að sem flestir fagni framtakinu. Vefurinn verður opnaður formlega síðar á þessu ári.