Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster E108
Höfundar / Authors: Brynja Hrafnkelsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Skógræktin
Kynnir / Presenter: Brynja Hrafnkelsdóttir
Samfara þeirri hlýnun sem orðið hefur á Íslandi undanfarin ár hefur skaðvöldum á birki fjölgað. Sumar tegundir, sérstaklega fiðrildalirfur, eru mjög áberandi og hafa valdið miklu tjóni og jafnvel trjádauða á sumum svæðum. Aðrar tegundir valda ekki jafn miklu tjóni einar og sér, en geta þó gert trén veikari fyrir öðrum skaða. Rannsóknir hafa einnig sýnt að langvarandi skaði af völdum slíkra tegunda, sem nærast á trjánum á hverju ári koma sjaldan í faröldrum, er meiri en oft hefur verið talið. Birkikemba (Heringocrania unimaculella) er dæmi um nýjan skaðvald sem finnst í dag víða um landið. Hún er smávaxið fiðrildi sem fannst fyrst á Íslandi árið 2005. Laufin sem lirfa birkikemba étur verða brún og uppblásin með tímanum, og veldur hún því miklum sjónrænum skaða. Ekki er vitað hversu mikil áhrif hún hefur á vöxt og afdrif trésins en þar sem skemmdirnar minnka getu þess til að ljóstillífa er líklegt að þau séu neikvæð. Annar skaðvaldur sem er áberandi er birkiryð (Melampsoridium betulinum) sem hefur verið hér mun lengur en getur einnig valdið verulegum skaða á birki, sérstaklega í plöntuuppeldi. Það barst líklega hingað til landsins snemma á síðustu öld og finnst í dag um land allt. Gró myndast neðra á borði blaðanna og geta þau orðið alþakin gróflekkjum sveppsins. Venjulega sjást flekkirnir þó ekki fyrr en seint í júlí og ná hámarki í byrjun september. Undanfarin ár hafa farið fram úttektir í birkikvæmatilraun í Varmadal í Rangárvallasýslu þar sem meðal annars var kannað var hvort skemmdir af völdum birkikembu og birkiryðs séu mismunandi á milli kvæma. Fyrstu niðurstöður benda til þess að ákveðin birkikvæmi hafi meiri mótstöðu gegn birkiryði og að birkikemba sækir meira í hraðavaxta birki. Þessar niðurstöður gætu nýst við val á réttum efniviði í ræktun birkis í framtíðinni.