Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster E104
Höfundar / Authors: Björn Traustason
Starfsvettvangur / Affiliations: Mógilsá, rannsóknastöð Skógræktarinnar
Kynnir / Presenter: Björn Traustason
Rannsóknastöðin á Mógilsá hefur umsjón með kortlagningu á skóg- og kjarrlendis á Íslandi og fylgist með þróun á útbreiðslu þessara mikilvægu en sjaldgæfu vist- og landgerða undir merkjum verkefnisins Íslensk skógarúttekt. Skóg- og kjarrlendi á Íslandi þekja nú tæp 2% af flatarmáli landsins, þar af þekja náttúrulegir birkiskógar 1,5% og ræktaðir skógar um 0,4%. Fjallað verður um hvar þessa skóga er að finna og hvernig þeir eru. Við gróðursetningu trjáplantna eða sjálfsáningu birkis breytist skilgreining á því landi sem fyrir er í skóg- eða kjarrlendi. Allt frá árinu 2005 hefur Íslensk skógarúttekt skráð upplýsingar um upprunalega landgerð þess lands sem fór undir skóg, hvort sem um er að ræða landnám náttúrulegs birkis eða nýgróðursetningar á ræktuðum skógum. Í erindinu er teknar saman og birtar niðurstöður um hvers konar skóglaust land hefur breyst í skóg- eða kjarrlendi. Í því ljósi verður einnig reynt að meta hvaða land er tiltækt til áframhaldandi nýskógræktar og bera það saman við landþörf mismunandi sviðsmynda um aukningu nýskógarsvæða á Íslandi næstu áratugina.