Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2021
Erindi/veggspjald / Talk/poster E10
Höfundar / Authors: Þorleifur Eiríksson (1), Þorgerður Þorleifsdóttir (1), Leon Moodley (2), Halldór Pálmar Halldórsson (3), Erlín Emma Jóhannsdóttir (4), Erlendur Gíslason (5), Kristján Lilliendahl (1), Gunnar Steinn Jónsson (1) Jónatan Þórðarson (5), Kristín Ágústsdóttir (4) og Þorleifur Ágústsson (1).
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. RORUM, 2. NORCE, 3. Háskóli Íslands, 4. Náttúrustofa Austurlands 5. Fiskeldi Austfjarða.
Kynnir / Presenter: Þorleifur Eiríksson
RORUM ásamt samstarfsaðilum hefur staðið að viðamikilli rannsókn á áhrifum fiskeldis á botn og botndýralíf í Berufirði. Rannsóknin hófst árið 2017 þegar tekin voru sýni á þremur stöðvum á sniðum í þrjár áttir frá fiskeldiskvíum. Í fyrsta hluta rannsóknarinnar var fjölbreytni botndýralífs rannsökuð auk þess sem magn og niðurbrotshraði lífræns kolefnis var mælt í botnseti. Í öðrum hluta var rannsakað hve djúp áhrif lífræns efnis væru með því að rannsaka botndýralíf og oxun á fjórum dýptarbilum í leðjunni, frá yfirborði niður á 20 cm dýpi. Unnið er eftir þeirri kenningu að hnignun og vöxtur botndýrasamfélaga fylgi Ʃ-ferli (sigmoid), að hlutir gerist hægt í byrjun, fylgt af tímabili hraðra breytinga og lokatímabili hægra breytinga, að tegundafjölbreytnin nálgist aðfelllu stöðugt en nái henni aldrei þar sem alltaf bætist við tegundir. Út frá ferlinum má ákvarða hvíldartíma fyrir svæðið. Niðurstöður fyrstu tveggja hluta rannsóknarinnar sýna mjög skýrt að áhrifin eru nær eingöngu bundin við efstu sentímetra botnsets nálægt kvíum og nær engin merkjanleg áhrif eru utan við 50 m frá kvíum. Allar mæliaðferðir sem notaðar voru við rannsóknin eru samhljóma. Í þriðja og síðusta rannsóknarhluta er verið að skoða hvernig breytingin verður á fjölbreytni tegunda og redox gildi eftir því sem lífrænt efni safnast upp með auknu eldi á hverju svæði og enn frekar hvernig fjölbreytni tegunda og redox gildi breytist þegar lífrænt efni brotnar niður á hvíldartíma.