Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster V60
Höfundar / Authors: Gísli Már Gíslason (1), Erling Ólafsson (2), Matthías S. Alfreðsson (2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskóli Íslands, 2 Náttúrufræðistofnun Íslands
Kynnir / Presenter: Gísli Már Gíslson
Tvær nýjar tegundir vorflugna hafa numið land á Íslandi nýlega, Potamophylax cingulatus á 20. öld og Micropterna lateralis á 21. öld. P. cingulatus fannst fyrst í Hallormsstaðaskógi 1959 og var á 8. áratug seinustu aldar bundin við Austur- og Norðausturland. M. lateralis er aðeins á Suðvesturlandi.
Báðar tegundir eru algengar í straumvötnum í Evrópu. Lirfur þeirra lifa á groti, en lirfur P. cingulatus lifa einnig á hryggleysingjum. Hér á landi hefur P. cingulatus dreift sér um allt land og er rándýr á Apatania zonella lirfum, sem hefur horfið úr straumvötnum þar sem P. cingulatus hefur tekið sér bólfestu.
M lateralis fannst fyrst í ljósgildru á Mógilsá 2008 og voru það aðeins 2 einstaklingar. Veiðin hefur aukist hratt síðan. Á seinasta ári veiddist hún í ljósgildru á Hvanneyri, 45 km norðan Mógilsár.
Þegar ný tegund kemur á stóra eyju eins og Ísland virðist hún byggja upp stofn og dreifast út frá honum. P. cingulatus var í upphafi einungis á Austur- og Norðausturlandi og hefur núna dreifst um allt land og er dreifingarhraðinn síðan 1978 um 7 km/ári. M. lateralis, sem fannst nýlega á Hvanneyri gæti hafa numið land frá Mógilsá og þá er dreifingarhraðinn 4-5 km/ári.