Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster V57
Höfundar / Authors: Guðni Þorvaldsson (1), Þorsteinn Guðmundsson (2), Hólmgeir Björnsson (3)
Starfsvettvangur / Affiliations: Landbúnaðarháskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Guðni Þorvaldsson
Árið 1959 voru lagðar út 3 tilraunir á Geitasandi á Rangárvöllum. Markmið þeirra var að finna út hvaða skammtar af nitri (N), fosfór (P) og kalíum (K) væru heppilegir á tún sem ræktuð eru upp á sandi. Tilraununum var ætlað að standa í fá ár en endirinn varð sá að þær stóðu í 50 ár. Tilraunareitir voru slegnir árlega og uppskera mæld. Tilraunir sem standa svona lengi bjóða upp á rannsóknir um langtímaáhrif áburðar á jarðveg, jarðvegslíf og uppskeru. Hér verða kynntar niðurstöður úr niturtilrauninni um áhrif nituráburðar á uppsöfnun kolefnis og niturs í jarðvegi.
Tilraunameðferðir voru fjórar (50, 100, 150 og 200 kg N/ha árlega) og endurtekningar 3. Allir reitir fengu einnig P og K. Eftir að tilraunin hafði staðið í 50 ár voru tekin jarðvegssýni úr öllum reitum í 3 dýptum (0-5 cm, 5-10 cm og 10-20 cm dýpt). Rúmþyngd, pH, C og N voru mæld og heildarmagn efna reiknað. Auðleyst Ca, Mg, K, Na og P voru greind í ammóníumlaktatskoli.
Á tilraunatímabilinu myndaðist um 10 cm þykk rótar- og trefjamotta ofan á sandinum. Að meðaltali söfnuðust 424 - 597 kg C ha-1 og 24 - 46 kg N ha-1 á ári. Fyrir hvert kíló af ábornu N safnaðist 1,05 kg af C og 0,15 kg af N ha-1 að meðaltali á ári í jarðveginn. Öll grasuppskera var fjarlægð af reitunum. Binding C og N í grasinu er því viðbót við það sem safnaðist í jarðveginum. Meirihluti áborinna næringarefna fannst annaðhvort í uppskerunni eða var í efstu 10 cm jarðvegsins þannig að lítið tapaðist með útskolun eða sem lofttegundir.