Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster V47
Höfundar / Authors: Klara Jakobsdóttir, Jón Sólmundsson og Hildur Pétursdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Hafrannsóknastofnun
Kynnir / Presenter: Klara B. Jakobsdóttir
Fæðunám tveggja djúpsjávarháfa við Ísland
Tvö af tegundaríkustu fiskasamfélögum í hafinu umhverfis Ísland má finna á miklu dýpi í landgrunnshallanum fyrir vestan og suðaustan landið. Enn er lítið vitað um ýmsa þætti sem einkenna þessi fiskasamfélög, þar á meðal fæðuvistfræði þeirra. Dökkháfur (Etmopterus princeps) og svartháfur (Centroscyllium fabricii) og eru djúpsjávartegundir af dökkháfaætt (Etmopteridae) sem tilheyra þessum samfélögum og eru þeir algengir í haustralli Hafrannsóknastofnunar á 400-1200m dýpi. Hér var leitast við að tvinna saman margra ára gagnaröð fæðugreininga (tegundagreiningar á magainnihaldi) úr haustleiðangri Hafrannsóknastofnunar (SMH) við niðurstöður úr greiningum á stöðugum samsætum (köfnunarefni og kolefni). Helstu fæðuflokkar reyndust vera fiskar, rækjur, ljósátur, kolkrabbar/smokkfiskar og marglyttur. Hefðbundin fæðugreining benti til mikilvægis fiska sem bráðar fyrir báðar tegundir, bæði m.t.t. fjölda og þyngdar. Laxsíldar reyndust mikilvægar í fæðu dökkháfs á báðum svæðum auk kolmunna fyrir austan. Fyrir vestan reyndist slétthali vera mikilvægur í fæðu svartháfs en laxsíldar og kolmunni fyrir austan. Niðurstöður greininga með stöðugum samsætum sýndu aukið vægi nokkurra annarra fæðutegunda og má þar nefna rækjur í fæðu dökkháfs og marglyttur í fæðu svartháfs.. Fæðuval dökkháfs reyndist um margt svipað á milli svæða en nokkur svæðamunur greindist hjá svartháfi. Yfir heildina voru gildi köfnunarefnis hærri fyrir austan. Ljóst er að stöðugar samsætur eru góð viðbót við hefðbundnari aðferðir fæðurannsókna, þar sem þær gefa upplýsingar um fæðu yfir lengri tíma og geta varpað ljósi á mikilvæga fæðuhópa (t.d. auðmeltari) sem síður koma fram við hefðbundnar fæðugreiningar.