Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster V46

Líf í borg - Vöktun Reykjavíkurtjarnar

Höfundar / Authors: Haraldur R. Ingvason, Stefán Már Stefánsson, Þóra Katrín Hrafnsdóttir, Kristín Harðardóttir og Finnur Ingimarsson

Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufærðistofa Kópavogs

Kynnir / Presenter: Haraldur R. Ingvason

Þegar fjallað erum hugtök á borð við vöktun og endurheimt leitar hugurinn gjarna á staði sem eru fjarri þéttbýli. Þessi hugtök geta hins vegar allt eins átt við nærri þéttbýli, sem og í borgarlandslagi eins og í tilviki Tjarnarinnar í Reykjavík. Saga Reykjavíkurtjarnar er allrar athygli verð en í dag er hún eitt af fáum vötnum á Íslandi sem telst vera undir miklu álagi sökum mengunar og nálægðar við þéttbýli. Slakt ástand Tjarnarinnar var staðfest með rannsóknum árið 2007 og í kjölfarið var ráðist í aðgerðir til að bæta vatnsgæði. Þessum aðgerðum hefur verið fylgt eftir á undanförnum árum með vöktun á nokkrum umhverfisþáttum, hornsílum, smádýrum og gróðurfari. Niðurstöðurnar sýna m.a. að í Tjörninni lifir nú blómlegur hornsílastofn og að alger umskipti hafa orðið í gróðurfari Tjarnarinnar frá því sem áður var.