Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster V41

Áhrif landnáms birkis á Skeiðarársandi á kolefnishringrás í jarðvegi

Höfundar / Authors: Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson (1), Þóra Ellen Þórhallsdóttir (1), Kristín Svavarsdóttir (2), Kristinn Pétur Magnússon (3,4)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskóli Íslands, 2. Landgræðslan, 3. Náttúrufræðistofnun Íslands, 4. Háskólinn á Akureyri

Kynnir / Presenter: Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson

Á 9. áratug síðustu aldar hóf ilmbjörk (Betula pubescens) að breiðast út á Skeiðarársandi þar sem áður var aðeins lágvaxinn gróður. Landnám birkisins gæti verið upphaf á ástandsbreytingu (state shift) svæðisins. Rannsóknir okkar beinast að þeim vistkerfisbreytingum sem fylgja uppvexti birkisins. Hér verður sagt frá þeim hluta verkefnsins sem tengist þróun á uppsöfnun og hraða á niðurbroti lífræns efnis í jarðvegi.
Valin voru þrjú svæði með misþétt birki. Á hverju svæði var trjám skipt í þrjá stærðarflokka: stór (>120 cm), miðlungsstór (70-120 cm) og lítil (20-70 cm) tré. Samanburðarreitir voru valdir í a.m.k. tveggja metra fjarlægð frá næsta birkitré. Til samanburðar voru gerðar mælingar í Bæjarstaðarskógi, stórum og stæðilegum birkiskógi.
Til að mæla áhrif birkisins á niðurbrot lífræns efnis var notast við tepokaaðferðina (e. Tea Bag Index) sem byggist á því að grafa tepoka í jörð til að líkja eftir lauffalli. Pokarnir voru grafnir 8 cm ofan í jörð 50 cm frá bol valinna trjáa. Með því að notast við tvær staðlaðar tetegundir fæst mat á hraða og heildarniðurbroti lífræns efnis.
Frumniðurstöður benda til þess að á fyrstu stigum hægi landnám birkis á niðurbroti lífræns efnis í jarðvegi. Niðurbrotshraði sýndi jafnframt jákvæða fylgni við þéttleika birkis og niðurbrotið var hraðast í Bæjarstaðarskógi. Þrátt fyrir það var 10% meira af lífrænu efni óniðurbrotið í Bæjarstaðarskógi en á Skeiðarársandi. Niðurstöður frá tveimur vaxtartímabilum (2018 og 2019) verða kynntar á ráðstefnunni.