Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E8
Höfundar / Authors: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir
Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri
Kynnir / Presenter: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir
Stöðugt bætist við þekkingu á fungu Íslands hvað varðar tegundir sem hér vaxa og útbreiðslu þeirra. Þar sem lítið ber á sveppum nema rétt á meðan þeir mynda aldin og fjölga sér þá getur verið seinlegt að safna upplýsingum um útbreiðslu þeirra. Svo er misjafnt hversu mikla möguleika sveppategundir hafa á útbreiðslu þar sem búsvæði sumra eru takmörkuð meðan aðrar gætu vaxið mjög víða því búsvæði þeirra eru stór. Mikill fjöldi sveppa vex í birkiskógum og margir sveppir fylgja víðitegundum. Sveppir sem tengjast innfluttum trjátegundum sem notaðar eru í skógrækt eru í sumum tilfellum lítill og tilviljunarkenndur hluti þeirrar fungu sem tengist trjánum í heimahögum þeirra erlendis en þó má búast við að sveppunum fjölgi heldur með tímanum en nú hafa fylgisveppir innfluttu trjánna haft allt að 120 ár til að komast til landsins þótt fyrir þá flesta sé það nær 75 árum. Þegar dauður trjáviður stendur sveppum til boða bætast fúasveppir við og eykst tegundafjölbreytni með digrari viði. Graslendi sem ekki er borið á og jafnframt eitthvað beitt er kjörlendi Hygrocybe tegunda og tengdra litskrúðugra hattsveppa. Hérlendis er mikið af slíku graslendi meðan lítið er af því í ýmsum löndum Evrópu. Tekin eru dæmi um nokkra sveppi, ýmist nýlega fundna eða þá sem líklega komu til landsins með trjám sem gróðursett voru upp úr aldamótunum 1900, og útbreiðsla þeirra tíunduð.