Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E76
Höfundar / Authors: Ólafur S. Andrésson, Alejandro Salazar Villegas, Petra L. Guðmundsdóttir, & Rúna Björk Smáradóttir.
Starfsvettvangur / Affiliations: Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
Kynnir / Presenter: Ólafur S. Andrésson
Á norðlægum slóðum með eldfjallajarðveg og snjóþekju að vetri er algengt að finna lífskurn sem myndast um breiður af hélumosa (Anthelia juratzkana). Þessi lífskurn getur verið langæ, en hverfur þegar dregur úr raka og snjóþekju. Hélumosi er atkvæðamesti frumframleiðandinn en lífskurnin er flókið samfélag með mikið af bakteríum og sveppum með töluverðan lífmassa og lífvirkni. Eins og víðar þá er talið að frumframleiðni takmarkist af nýtanlegum nitursamböndum. Mælingar á afoxun asetýlens (ARA) benda til niturnáms á bilinu 1-4 kg/ha af N, sem er nokkru meira en áætluð ákoma. Niturnám eykst með hitastigi upp að 25 ºC, með ljósmagni upp að ~150 μmól ljóseindir m-2 s-1 og með auknum raka, einkum við háan hita. Á hélumosasvæðum er birta að jafnaði mikil, raki mjög breytilegur og á sumrin eru miklar dægursveiflur á hitastigi, gjarnan frá 5 ºC að nóttu upp í 30 ºC á sólríkum dögum. Með mælingum úr tilraunastofu og veðurfarsupplýsingum má leggja mat á árlegt niturnám.
Greining á erfðaefni baktería í lífskurn bendir til að margar gerðir baktería taki þátt í niturnáminu, sérstaklega af ættbálkunum Rhizobiales (alfa purpurabakteríur), Nostocales (blábakteríur) og Chromatiales (gamma purpurabakteríur). Hlutfall þungu samsætunnar 15N er mun lægra í lífskurn en í andrúmslofti og í niturnámsbakteríum. Þessi skerðing er væntanlega vegna mismununar í flutningi 15N og 14N milli fruma, husanlega fyrir tilstilli sveppþráða sem geta miðlað nýtanlegu köfnunarefni frá niturnámsbakteríum til plantna.
Um 12% af erfðaefni lífskurnar er úr sveppum, en lífmassi sveppa er svipaður og lífmassi baktería og sveppa er svipaður. Svartsveppir af ættkvíslunum Exophiala og Phialophora, ásamt Phialocephala, er algengir, en þeir geta allir myndað svepprót.