Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E73
Höfundar / Authors: Steinunn H. Ólafsdóttir, Hlynur Á. Þorleifsson, Bylgja S. Jónsdóttir, Julian M. Burgos, Hjalti Karlsson, Arnþór B. Kristjánsson
Starfsvettvangur / Affiliations: Hafrannsóknastofnun
Kynnir / Presenter: Steinunn H. Ólafsdóttir
Í kortlagningaleiðangri búsvæða á hafsbotni nú í sumar náðist mynd af harla undarlegu dýri. Það lætur í raun lítið yfir sér, er varla nema um 10 cm í þvermál, er fölblátt og hreyfðist ekki. Kambur dýrsins minnir á bertálkna og fóturinn á lindýr en yfirbraðgið minnir á sæfífil.
Enn hefur ekki tekist að bera kennsl á dýrðið þrátt fyrir sérkennilegt útlit. Myndin var tekin þegar neðansjávarmyndavél, sem notuð er við rannsóknir á búsvæðum, sveif yfir dýrið á Kötlugrunni. Það er í sjálfu sér ekki óvanalegt að erfitt reynst að greina lífverur sem eru ljósmyndaðar á botninum en hins vegar hefur heldur ekki tekist að setja dýrið í fylkingu, hvað þá ætt eða tegund. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp en þar sem dýrið sjálft var ekki tekið af botninum til nánari skoðunar þá verður hugsanlega hvorki hægt að staðfesta eða véfengja neitt í þeim efnum.
Hafrannsóknastofnun hefur unnið að rannsóknum á búsvæðum á hafsbotni í nokkur ár og hefur í gegnum tíðina safnað fjölda ljósmynda og video efnis af lífverum botnsins. Oft reynst erfitt að greina þessar lífverur til tegunda en yfirleitt er möguleiki á að setja þær í ákveðna hópa, hvort sem það eru fylkingar eða nákvæmari greining. Aldrei hefur þetta dýr þó komið fyrir áður og aðeins þetta eina dýr sást.
Annað áhugavert sem kom í ljós í leiðangrinum í sumar var að hvert svæði sem var skoðað hafði sín sérkenni. Á stóru svæði vestur af Reykjanesi, sem kallast Jökuldjúp, var ákveðin sæbjúgnategund ríkjandi. Á öðrum svæðum, allt frá Eldey að Hornafjarðardjúpi, voru til dæmis búsvæði þar sem svampar, kóralrif, sæfjaðrir eða kóraltré voru áberandi. Á sandbotninum sunnan við land voru hins vegar fá dýr sjáanleg.
Ef einhver þekkir dýrið, eða er með tillögur að því hvað það er, endilega deilið því með okkur.