Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster E59

Vistkerfi vatnsfalla á Vestfjörðum

Höfundar / Authors: Sigurður Már Einarsson (1), Jóhannes Guðbrandsson (1), Jón S. Ólafsson (1), Eydís Salome Eiríksdóttir (2)

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Ferskvatnssvið 2. Umhverfissvið - Hafrannsóknastofnun Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna

Kynnir / Presenter: Jóhannes Guðbrandsson

Undanfarin fimm ár hefur Hafrannsóknastofnun (áður Veiðimálastofnun) unnið að kerfisbundnum rannsóknum á vistkerfum vatnsfalla á Vestfjörðum. Vitneskja okkar um vistkerfi ferskvatns á Vestfjörðum hefur til þessa verið af skornum skammti. Má að miklu leyti skýra það út frá því að veiðinytjar hafa til þessa verið litlar í samanburði við aðra landshluta og því ekki verið kallað eftir rannsóknum af hendi veiðiréttarhafa. Með rannsókn Hafrannsóknastofnunar var megin markmiðið að bæta úr þeim þekkingarskorti og að afla grunnupplýsinga um vistkerfi vatnsfalla á Vestfjarðakjálkanum. Til að ná settu markmiði fóru sýnatökur fram í 60 vatnsföllum, þar sem í hverju þeirra voru gerðar 1) mælingar á uppleystum efnum, basavirkni, pH og leiðni, 2) mælingar á lífmassa frumframleiðenda og sýni tekin til greininga á þörungum, 3) sýni tekin til greininga á botnlægum hryggleysingjum og lífrænu reki, 4) rannsóknir á seiðastigi fiskstofna þ.á.m. voru tekin sýni til erfðagreininga og 5) sýni til greininga á umhverfis DNA (e-DNA). Við munum kynna helstu niðurstöður rannsóknarinnar og næstu skref í greiningu þeirra.