Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E57
Höfundar / Authors: Brynhildur Bjarnadóttir (1) Bjarni Diðrik Sigurðsson (2)
Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Háskólinn á Akureyri, 2. Landbúnaðarháskóli Íslands
Kynnir / Presenter: Brynhildur Bjarnadóttir
Rannsóknarverkefnið MÝRVIÐUR stóð yfir á árunum 2014-2017 og hafði það að markmiði að skoða kolefnisbúskap gróðursetts asparskógar á framræstu mýrlendi. Fylgst var með kolefnisflæði vistkerfisins í tvö ár og sýndu niðurstöður að kolefnisupptaka skógarins (GPP) var að jafnaði 47,2 t CO2/ha á ári en vistkerfisöndun hans var 21 t CO2/ha á ári. Það þýðir að kolefnisjöfnuður skógarins var jákvæður bæði árin í þeim skilningi að meiri binding en losun átti sér stað. Þetta kom á óvart þar sem fyrirfram var búist við að jöfnuður svæðisins yrði neikvæður, þ.e. að meiri losun en binding ætti sér stað í vistkerfinu. Kolefnisbindingin (NEE) samsvaraði 26,2 CO2/ha á ári. Til að geta lagt mat á heildarkolefnishringrás vistkerfisins fóru líka fram mælingar á flutningi lífræns efnis (TOC) sem yfirgaf vistkerfið með afrennslisvatni, en í framræstu landi er talið mikilvægt að meta þann þátt. Á einu ári nam slíkur flutningur einungis sem samsvarar 142 kg CO2/ha, sem þýddi að hlutfallslega var tapið einungis um 0,5% af árlengri kolefnisbindingu (NEE). Mælingar á kolefnisforða trjánna í skóginum sýndu að þau voru í örum vexti. Að jafnaði bundu þau 22,1 t CO2/ha á ári 2015-2016. Það að sú tala var lægri en heildar kolefnisbindingin (að frádregnu TOC) þýðir að kolefnisbinding í skógarbotni og jarðvegi framræstu mýrarinnar var væntanlega um 3,9 t CO2/ha þrátt fyrir framræsluna. Mælingar á vatnshringrás svæðisins sýndu að heildarúrkoma árið 2015 nam 1237 mm, af því magni mældist raungufun frá skóginum vera um 821 mm eða um 66% af ársúrkomunni.