Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019
Erindi/veggspjald / Talk/poster E56
Höfundar / Authors: Edda Sigurdís Oddsdóttir (1)
Starfsvettvangur / Affiliations: Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar
Kynnir / Presenter: Edda Sigurdis Oddsdottir
Skógar eru eitt stærsta kolefnisforðabúr jarðar. Áætlað er að kolefnisforði í gróðri heimsins sé um 560 milljarðar tonna en af þeim séu 360-420 milljarðar tonna í skógum. Að auki má reikna með því að á milli 30 og 70 prósent kolefnisforða jarðvegs séu í jarðvegi skóga.
Hversu hratt kolefni binst í skógum fer eftir því hversu hratt trén í skóginum vaxa. Samanburður á vexti trjáa á Íslandi hefur sýnt að vöxtur gjöfulustu tegundanna er svipaður hér og gjöfulustu tegundanna í Skandinavíu. Kolefnisbinding með skógi er því vel raunhæf hér á landi.
Íslendingar eru ríkir af illa förnu landi, sem losar kolefni meðan lífrænt efni er enn til staðar í jarðveginum. Þegar illa farið eða örfoka land breytist í skóg verður mikil og hröð binding kolefnis. Hversu hröð hún verður fer eftir því hvaða trjátegund er notuð. Mælingar hafa sýnt að hraðvaxta alaskaösp bindur hvað mest, yfir 20 tonn af CO2/ha/ári þar sem best lætur. Barrtegundir, t.d. lerki, stafafura og sitkagreni, binda 7-11 tonn af CO2/ha/ári en bindingin er minni hjá íslenska birkinu, 3,5 tonn CO2/ha/ári, enda vex það hægar.
Skógar og kjarr þekja nú aðeins um 2% af flatarmáli Íslands og hér er því einstakt tækifæri að rækta skóg til að binda kolefni. Aukaafurð þeirrar kolefnisbindingar verður síðan timburafurð, sem nýta má til að draga úr notkun á steinsteypu, járni og kolum. Þannig getur notkun á viðarafurðum dregið verulega úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda, þegar litið er á heildarmyndina.