Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster E44

Fyrirbyggjandi ónæmismeðferð gegn sumarexemi í hestum

Höfundar / Authors: Sara Björk Stefánsdóttir (1), Sigríður Jónsdóttir (1,2), Hólmfríður Kristjánsdóttir, Vilhjálmur Svansson (1), Eliane Marti (2), Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (2).

Starfsvettvangur / Affiliations: 1. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Reykjavík, Ísland. 2. Dýrasjúkdómadeild Háskólans í Bern, Bern, Sviss.

Kynnir / Presenter: Sara Björk Stefánsdóttir

Sumarexem er húðofnæmi í hestum með framleiðslu á IgE mótefnum og einkennin eru exem og kláði. Sjúkdómurinn orsakast af ofnæmisviðbrögðum gegn biti smámýs (Culicoides spp.) sem lifir ekki á Íslandi. Sumarexem er dýravelferðarmál og vandamál fyrir útflutning en tíðni þess er mun hærri hjá útfluttum hestum en hjá íslenskum hestum fæddum erlendis. Ferill sjúkdómsins hefur verið skilgreindur og ofnæmisvakarnir einangraðir. Markmið rannsóknarinnar er að þróa bólusetningu með ofnæmisvökum í ónæmisglæði.
Tekist hefur að TH1/Treg-miða ónæmissvar í hestum með því að bólusetja með hreinsuðum ofnæmisvökum í ónæmisglæðum Alum/monophosphoryl-lipid-A (MPL) í eitla. IgG mótefni sem mynduðust við bólusetninguna hindruðuð bindingu IgE úr sumarexemshestum við ofnæmisvaka.
Verið er að bera saman sprautun í eitla við auðveldari sprautun undir húð. Tólf hestar voru sprautaðir þrisvar sinnum með fjögurra vikna millibili, í eitla eða undir húð með þremur ofnæmisvökum í alum/MPL. Mótefnin voru mæld í sermi með ELISA og boðefnasvörun í kjölfar in vitro örvunar á hvítfrumum með luminex og rauntíma PCR.
Báðar sprautunaraðferðir örvuðu myndun á sértækum mótefnum sem hindruðu bindingu IgE úr sumarexemshestum við ofnæmisvakana. Verið er að ljúka mælingum á boðefnasniði.
Á grundvelli niðurstaðanna verður valin sprautunarleið fyrir áskorunartilraun. Hestar verða bólusettir á Íslandi og fluttir út á flugusvæði, og fylgt eftir í þrjú ár til þess að meta hvort að bólusetningin veiti vörn gegn sumarexemi.