Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster E38

Kolefnisbinding - hvað geta bændur gert? Dæmi af Hrunamannaafrétti

Höfundar / Authors: Sigurður Hjalti Magnússon

Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun Íslands

Kynnir / Presenter: Sigurður Hjalti Magnússon

Þótt Hrunamannaafréttur sé víða allvel gróinn hefur gróður eyðst þar á stórum svæðum. Til að vinna gegn gróðureyðingu var árið 1970 sett upp 14 km löng landgræðslugirðing suðvestast í afréttinum. Borið var á land í girðingunni með flugvél og var skipulag í höndum sveitarstjórnar og Landgræðslu ríkisins. Sauðfé var hleypt inn í girðinguna síðsumars til að létta beit af framafrétti.
Vorið 1992 voru markmið uppgræðslu endurskoðuð og fyrirkomulagi breytt. Megináhersla var nú lögð á að stöðva rof og græða upp moldir. Í framhaldi var dreifingu með flugvél hætt og girðingin friðuð fyrir beit. Farið var að græða upp land bæði á friðuðu landi og beittu. Sauðfjárbændur tóku nú í fyrsta sinn beinan þátt í uppgræðsluaðgerðum.
Aðgerðir hafa verið margs konar; á beittu landi áburðargjöf og sáning grasfræs, hey sett í rofabörð og kjötmjöli dreift, á friðuðu landi hefur auk þess birki verið sáð, víðir settur niður, smára og lúpínu plantað og seyru dreift.
Á síðustu áratugum hafa aðstæður breyst verulega í afrétti, loftslag hefur hlýnað og beitarálag minnkað. Þótt rof sé enn talsvert hefur land sums staðar gróið upp án nokkurra aðgerða og á uppgræðslusvæðunum hefur víða tekist að stöðva hraðfara rof og auka gróðurþekju verulega.
Þegar byrjað var að græða upp land í afrétti var kolefnisbinding lítt til umræðu. Nú er ljóst að mikilvægt er að binda kolefni, m.a. með uppgræðslu. Í því sambandi getur beit og það sem gert er haft veruleg áhrif á niðurstöðu.
Í erindinu verður fjallað um áhrif sauðfjárbeitar og nokkrar sviðsmyndir dregnar upp af aðferðum sem hugsanlega má nota til að græða upp land og auka bindingu kolefnis á afrétti Hrunamanna og hvernig bændur geta komið að því verki.