Líffræðifélag Íslands - biologia.is
Líffræðiráðstefnan 2019

Erindi/veggspjald / Talk/poster E37

Fuglar og landbætur

Höfundar / Authors: Ólafur Karl Nielsen, Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Starfsvettvangur / Affiliations: Náttúrufræðistofnun Íslands

Kynnir / Presenter: Ólafur Karl Nielsen

Stefna íslenskra stjórnvalda er að stórauka kolefnisbindingu úr andrúmslofti með eflingu skógræktar og landgræðslu. Eins að takmarka framræslu votlendis en auka endurheimt þess og vinna með bændum í auknum mæli að landbótum. Rætt verður um möguleg áhrif þessara aðgerða á fuglafánu landsins og athyglinni er beint að svokölluðum ábyrgðartegundum (= 25 tegundir). Þetta eru þær tegundir fugla þar sem meira en 20% Evrópustofns verpir á Íslandi eða fer um landið. Boðaðar aðgerðir til kolefnisbindingar snerta sérstaklega fimm af þessum ábyrgðartegundum: heiðlóu, lóuþræl, jaðrakan, spóa og stelk en íslenskir stofnar þeirra eru 22-48% af viðkomandi Evrópustofnum. Þetta eru allt vaðfuglar sem bundnir eru við opið land og verpa að langmestu leyti neðan 300m y.s. Auk þess má nefna ábyrgðartegunda fálka sem byggir afkomu sína að mestu leyti á veiðum á bersvæði. Allar boðaðar aðgerðir aðrar en skógrækt teljast vera hlutlausar eða hafa jákvæð áhrif á stofna þessara ábyrgðartegunda. Skógrækt mun hafa neikvæð áhrif á stofna þessara vaðfugla en hversu mikil áhrifin verða ræðst bæði af umfangi og eins í hvers konar land er plantað. Miðað við 10 þúsund ferkílómetra nýskóga eins og boðaðir hafa verið til næstu aldamót gætu að jafnaði um 40% af búsvæðum fyrrnefndra vaðfuglategunda horfið. Þeir skógarfuglar sem nema nýskógana eru bæði innlendir varpfuglar og eins tegundir sem sækja hingað frá Evrópu. Enginn íslensku skógarfuglanna er ábyrgðartegund og verndarstaða nýbúanna er almennt góð.